Að eðlisfari hefur maðurinn mismunandi hæfileika til að takast á við kröfur samfélagsins. Með samfelldri skólagöngu frá 6 ára aldri og fram á unglingsár, er gert ráð fyrir að einstaklingurinn standi undir væntingum sem gerðar eru um viðunandi námsárangur. Þó gengur sumum einstaklingum erfiðara en öðrum að standast þessar kröfur og eiga þeir þá oft við námserfiðleika að stríða. Lestrarhömlun er ein tegund námserfiðleika, þar sem einstaklingnum gengur erfiðlega að læra að lesa. Greining þarf hinsvegar að fara fljótt fram svo barnið fái rétta aðstoð, sem sé við þess hæfi. Þegar börn eiga erfitt með nám, er það skylda skólans samkvæmt grunnskólalögum að aðstoða börnin með nám sem hentar námserfiðleikum þeirra. Í litlum skólum sem hafa fáa nemendur við nám, krefst það mikils samstarfs við skólaskrifstofu héraðsins og sérfræðinga hennar, þegar veita þarf börnum með námserfiðleika viðeigandi aðstoð. Aðstoðarkerfið í litlum skólum þarf þó alls ekki að vera verra en í stærri skólum, sé rétt staðið að samstarfi milli sérfræðinga skólaskrifstofunnar, foreldra og skólans sjálfs. Skólaskrifstofa héraðsins gengnir miklu ábyrgðarhlutverki við að skipuleggja og samhæfa störf sérfræðinga á þeirra vegum, svo þeir geti veitt sem bestu aðstoð í litlum skólum, sem treysta á störf sérfræðinganna við greiningu og meðferð barna sem eiga í erfiðleikum.
Námserfiðleikar hafa ætið verið til staðar, en skilgreining þeirra hefur verið á ýmsan máta. Þessi börn eiga þó eitt sameiginlegt, þeim gengur illa að tileinka sér námsefnið í skólanum. Tíðni námserfiðleika er á bilinu 4-10% í grunnskóla á hverjum tíma og geta þeir lagst afar þungt á barnið og þeirra nánustu. Börn sem eiga við námserfiðleika að stríða geta haft mjög fjölbreytileg einkenni. Þau geta til dæmis verið fyrir ofan eða við meðalgreind, en haft mikla erfiðleika við lestur, stafsetningu, reikning eða annað námsefni. Einnig er ofvirkni eitt algengasta hegðunareinkenni sem tengt er við börn sem stríða við námserfiðleika. Skynjunar- og einbeitingarvandamál eru oft talin fylgja námserfiðleikum og minnistruflanir og truflun í skipulagningu upplýsinga í minni hafa einnig verið tengd við erfiðleika í námi. Námserfiðleikar eru því af ýmsum toga og álíka fjölbreytni er í skýringum um orsakir þeirra. Nefndir hafa verið þættir líkt og heilaskaði, næringarskortur, þroskatruflanir, eituráhrif úr umhverfinu, genagallar og léleg kennsla. Af þessu má sjá að engar einar orsakir námserfiðleika eru til og sjálfsagt geta allir þessir þættir haft áhrif á námserfiðleika á einn eða annan hátt.