Þegar námserfiðleikar birtast í lestri eða stafsetningu voru erfiðleikarnir oftast nefndir lesblinda en sá orðháttur hefur lagst af, þar sem sjón þess sem á í lestrarerfiðleikum er yfirleitt í fullkomnu lagi og leserfiðleikarnir stafa af öðrum ástæðum en skaða í augum. Í daglegu tali nú eru erfiðleikar í lestri nefndir leshömlun eða að latneska orðið dyslexía er notað. Undirstöðuatriði þegar lært er að lesa, er að tileinka sér hljóð tungumálsins, geta kallað það fram úr minni og tengja það við bókstafi. Lestrarhömlun birtist því oft í því að einstaklingurinn hefur ekki eðlilegan næmleika á hljóðkerfi tungumálsins. Vangetan sést oft í erfiðleikum í því að samræma hljóðmyndir orða og verða myndanir orða oft ófullnægjandi, því athyglin er á merkingu orðsins og hvernig það hljómar, þeim gengur einnig oft erfiðlega að greina lík hljóð í sundur og muna þau. Lestrarhömlun beinist því oft að erfiðleikum við að umskrá stafi í hljóð og raða því saman í rétt orð. Lestrarhömluð börn geta sér því oft til um merkingu orða út frá hugmundum sínum um myndræna merkingu þess. Að umskrá orð í hljóð verður því ekki sjálfvirkt ferli hjá lestrarhömluðum börnum, heldur verður lesturinn mikil vinna sem krefst allrar einbeitingar einstaklingsins.
Frekari upplýsingar um leshömlun er hægt að fá í tímaritinu Glæður, tímariti sérkennara og einnig má benda á bókina Cognitive development in atypical children sem hefur ýmsar upplýsingar um leshömlun..