Verkefni í Ýmsum námsörðugleikum


Sigríður Jónsdóttir
Dyslexía

Lestrarfærni er ein af undirstöðum þróunar og framfara og vanhæfni á því sviði er hamlandi í upplýsingasamfélagi vestrænnar menningar. Lestrarörðugleikar af einhverju tagi eru okkur því fjötur um fót. Sértækir lestrarörðugleikar, dyslexía, torlæsi eða leshömlun eru fræðiheiti sem notuð eru yfir sérstaka tegund lestrarörðugleika. Fræðimenn hafa rannsakað lestrarörðugleika frá því í lok 19. aldar en af mestu kappi síðustu 20 - 30 árin. Skilgreiningar hafa breyst í tímans rás og enn eru menn ekki sammála um hvað það er nákvæmlega sem afmarkar þennan hóp fólks með lestrarörðugleika frá öðrum.

Margt er óljóst um orsakir dyslexíu. Í frumbernsku fræðanna var gengið út frá því að örðugleikarnir væru tengdir sjónrænum þáttum. Nýjar rannsóknir benda hins vegar til að þær tengist ágalla eða bresti í hljóðræna kerfinu sem rekja megi til starfsemi miðtaugakerfisins.

Þegar lestrarnám hefst í byrjun skólagöngu kemur í ljós að það eiga ekki allir jafnauðvelt með að ná tökum á lestrinum. Byrjunarörðugleikar í lestri geta verið af ýmsum toga og miða þarf kröfur við aldur og þroska. Séu þeir hins vegar viðvarandi og hamlandi í námsframvindu þarf að bregðast við. Mikilvægt er talið að dyslexía greinist snemma því áhrifarík kennsla auki möguleikana á að ná tökum á vandamálunum. Algengast er að grunnskólanemendur fái greiningu hjá Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands en einnig er hægt að fá greiningu hjá taugasálfræðingum.

Það að vera með dyslexíu hamlar einstaklingnum í námi. Hann þarf að leggja meira að mörkum í vinnu sinni en "venjulegur" nemandi og upplifir sig oft sem „heimskan." Úrræði sem skólinn getur gripið til í viðleitninni til að auka lestrarfærni nemandans og milda neikvæð áhrif dyslexíu lúta m.a. að kennsluaðferðum og stuðningi.

Reynsla fullorðins fólks með dyslexíu af baráttunni við bókina, þ.e. lestrarnámið og lestur, er oftar en ekki sár og minningar tengdar skóla óþægilegar. Mörgum hefur samt tekist að vinna bug á þeirri hömlun sem í því felst að vera með dyslexíu þó vandinn sé enn til staðar. Eigin reynsla getur orðið til þess að fólk er meðvitaðra en ella gagnvart mögulegum dyslexíu-einkennum hjá eigin börnum.

©1997