Sigríður Jónsdóttir
Dyslexía


Orsakir

Á síðustu árum hefur í áherslan í rannsóknum beinst að sambandi talskynjunar og lesturs og þætti hljóðkerfisvitundar í lestri. Niðurstöður fjölda rannsókna leiða sterklega líkur að því að hljóðkerfisvitundin skipti meginmáli fyrir lestrarnám og að hjá einstaklingum með dyslexíu sé hún brengluð. Flest bendir því til að orsakir dyslexíu séu líffræðilegs eðlis og að þær megi rekja til einhvers konar truflunar í málstöð heilans sem valdi skertum hæfileikum í úrvinnslu hljóðrænna áreita. Einnig er talið að það reyni á skammtímaminni og ákveðna sjálfvirkni til að ná færni í lestri. Ef starfsemi þessara þátta, þ.e. hljóðkerfisvitundarinnar, skammtímaminnisins og sjálfvirkninnar er á einhvern hátt skert næst ekki það samspil milli þeirra sem þarf til. Dyslexía verður því vart rakin til einnar orsakar heldur er um orsakasamhengi fleiri þátta að ræða.

Rannsóknum hefur fleygt fram á síðustu árum en lækning er þó ekki í sjónmáli. Aukin þekking leiðir hins vegar til meiri skilnings á vanda þeirra sem eiga við dyslexíu at etja og eykur líkur á að hægt sé að koma til móts við vandann.

Rannsóknir benda til að dyslexía sé ættgeng og að tíðni dyslexíu innan fjölskyldna þar sem einhver hefur greinst með dyslexíu sé meiri en annars mætti gera ráð fyrir.

© 1997