Sigríður Jónsdóttir
Dyslexía


Dyslexía

Orðið dyslexía er komið úr grísku og þýðir erfiðleikar með orð ("dys" - erfiðleikar; "lexis" - orð). Það er því sjálfgefið að nemandi sem á við slíka erfiðleika að etja á erfitt uppdráttar í hefðbundnu námi sem byggir á bókinni - lestri og skrift.

Dyslexía er fræðiorð eða hugtak yfir sértæka lestrarörðugleika. Nokkur ágreiningur hefur verið um skilgreiningar á dyslexíu enda fræðin yfirgripsmikil. Lestrarörðugleikar voru fyrst greindir síðla á 19. öldinni í tengslum við læknisfræði. Gengið var út frá því að þeir væru tengdir sjónrænum þáttum og talað um orðblindu. Niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á síðustu áratugum hafa gefið mönnum aðra og víðari sýn á vandann og í kjölfarið hafa skilgreiningar breyst samanber eftirfarandi:

Skilgreining alþjóðasamtaka taugalækna (World Federation of Neurology) frá 1968 hljómar á þann veg að dyslexía sé veila hjá börnum sem lýsi sér í því að þau nái ekki færni í lestri, skrift og stafsetningu þrátt fyrir hefðbundna kennslu og nægjanlega greind.

Skilgreining British Dyslexia Association frá 1989 er víðtækari og segir dyslexíu sértæka námsörðugleika, eðlislæga að uppruna, sem birtist í erfiðleikum í lestri, stafsetningu og meðferð ritaðs máls, og geti verið samfara vandamálum í stærðfræði. Þetta tengist einkum erfiðleikum við að ná tökum á ritmáli (stafrófs, talna og tónlistar), enda þótt þeir snerti oft talað mál að einhverju marki.

Skilgreining frá árinu 1995 sem komin er frá samstarfshópi bandarískra vísindamanna, félagi áhugamanna um dyslexíu og fulltrúa bandarísku barnaheilbrigðisstofnunarinnar ber merki um breyttan skilning á eðli dyslexíu og segir m.a. að dyslexía feli í sér áskapaða málhömlun sem lýsi sér í erfiðleikum í úrlestri stakra orða (single word decoding) sem beri vott um ófullnægjandi hljóðkerfisúrvinnslu. Áhersla er lögð á að erfiðleikarnir nái yfir lestur, ritleikni og stafsetningu og séu oft óvæntir þegar tekið er mið af aldri, námsgetu og vitsmunum.

Einkenni dyslexíu geta verið margháttuð og tengjast aldri og þroska. Þau birtast einkum í lestri og stafsetningu og eru tengd erfiðleikum við að vinna með ritmál. Tilteknir eru erfiðleikar við að vinna með málhljóðin, t.d. að endurtaka orðleysur eða að sundurgreina hljóð, en sterk tengsl virðast vera milli hljóðvitundar og lestrarnáms. Einnig getur færniskortur á öðrum sviðum, t.d. í fínhreyfingum, eða almenn einkenni eins og einbeitingarskortur, aukið á erfiðleika nemandans. Hjá eldri nemendum geta afleiðingar dyslexíu birst í lélegri glósu- og námstækni, slæmri stafsetningu, litlum lestrarhraða o.fl. Lista yfir einkenni á ýmsum aldurstengdum afleiðingum dyslexíu er m.a. að finna í litlum bæklingi: Leiðarvísir um dyslexíu - Sértækir námsörðugleikar, sem gefinn er út af Íslenska Dyslexíufélaginu. Hafa ber í huga að dyslexían er einstaklingsbundin, þ.e. hún hefur mismunandi birtingarform eftir einstaklingum.

Ofangreint er aðeins brot af því sem varðar dyslexíu en fræðirit sem varpað geta skýrara ljósi á málið eru fjölmörg. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér málið frekar bendi ég hér á nokkur rit:

Dyslexía - vandamál nemenda eða kennara? Höfundur: Steinunn Torfadóttir, grein í Glæðum 1/6/96

Leiðarvísir um dyslexíu - Sértækir námsörðugleikar, höfundur: Jean Blight, útg. er Íslenska Dyslexíufélagið.

Reading, Writing and Dyslexia, A Cognitive Analysis, höfundur: Andrew W. Ellis

Sálfræði ritmáls og talmáls, höfundur: Jörgen Pind

Specific Learning Difficulties (Dyslexia) - Challenges and Responses, höfundar: Peter D. Pumfrey og Rea Reason

The Scars of Dyslexia, höfundur: Janice Edwards

© 1997