Sigríður Jónsdóttir
Dyslexía


Reynsla

„Ég hélt alltaf að ég hefði bara einhvern veginn komist hjá að læra stafsetningu" , sagði Jóna þegar hún sagði mér frá skólagöngu sinni og nýfengnum upplýsingum um að hún hefði greinst með dyslexíu sem þó væri ekki á háu stigi.

Jóna er 32 ára gömul og lauk námi frá H.Í. vorið 1996. Hún tók eins árs leyfi vegna barneigna og lauk náminu á fimm árum. Á síðasta sprettinum í vinnunni við B.A.-ritgerðina fékk hún nýjan prófarkalesara í lið með sér þar sem annar „gömlu" yfirlesaranna heltist úr lestinni vegna anna. Þessi nýi yfirlesari sagði villufjöldann í stafsetningunni ótrúlegan og að hún yrði að gera eitthvað í þeim málum; hún kæmi ekki til með að geta skilað skammlaust af sér skýrslum sem myndu tilheyra störfum hennar í nýju vinnunni sem hún var búin að fá vilyrði fyrir. Jóna svaraði því til að hún væri alltaf á leiðinni, hefði bara aldrei tíma og „gömlu" yfirlesararnir hefðu líka alltaf verið að nudda í henni um þetta.

Um þetta leyti var sonur Jónu að ljúka sínu fyrsta ári í skóla. Hann var ekki glaður í skólanum, honum gekk illa að fást við stafina, skriftin var „hörmuleg" og hann var „lélegastur" í bekknum að eigin sögn. Ekki bætti úr skák að frænka hans, jafngömul, sem hann hafði mikið samneyti við var „eldklár."

Athugasemdir úr nýrri átt, þ.e. frá nýjum prófarkalesara og áhyggjur af námsframvindu sonarins urðu kveikjan að því að Jóna fór að rifja upp eigin skólagöngu og hún mundi nú glöggt að hún varð ekki læs fyrr en um 10 ára aldur. Hún var geðgott barn, yngst í stórum systkinahópi og fékk góðan stuðning heima. Hún minntist þess ekki að hún hafi verið leið yfir að verða svona seint læs. Hún hafði lítillega lesið um dyslexíu og lagði nú saman tvo og tvo. Hún spurði móður sína og systkini um þeirra lestrarnám og komst að því að hún ein hefði verið sein til við að ná tökum á lestrinum og foreldrar hennar könnuðust ekki við þennan vanda hjá sjálfum sér.

Í framhaldi af þessu pantaði Jóna greiningu fyrir sig í Lestrarmiðstöð Kennaraháskólans. Niðurstöðuna fékk hún um mitt sumar en hún hljómaði á þá leið hún hefði einkenni dyslexíu og þá einkum á sviði hljóðræna kerfisins; að hún ætti erfitt með að vinna með hljóð. Jóna var ekki ósátt við niðurstöðurnar og taldi að vitneskjan myndi hjálpa henni í að styðja við son sinn ef í ljós kæmi að hann þyrfti að takast á við dyslexíu.

Að hausti hafði hún samband við kennara sonarins og greindi frá áhyggjum sínum um að hann hefði mögulega „drukkið í sig dyslexíu með móðurmjólkinni." Það varð að samkomulagi að drengurinn fengi strax sérstaka „meðferð." Nú, ári síðar, er ljóst að drengurinn hefur tekið miklum framförum og stendur jafnfætis mörgum öðrum í bekknum í lestrarnáminu. Jóna segist því ekki vita hvort hann sé bara „seinn til" á þessu sviði eða hvort hann hafi dyslexíu, hún sé hins vegar á varðbergi. Hann sé ólíkur henni að því leytinu til að hann sé mikill keppnismaður og taki nærri sér að vera „lélegur" eins og hann segir sjálfur en það hafi hins vegar ekki háð henni. Hennar styrkur hafi mögulega verið sá að hún ólst upp við það að hún væri dugleg og best! Það ásamt því að hún hafi litið svo á að léleg meðferð máls og léleg stafsetning hafi verið öðrum að kenna, þ.e. kennurum í barnaskólanum, hafi líklega bjargað sér frá vanmetakennd og ýtt henni áfram gegnum námið!

© 1997