Sigríður Jónsdóttir
Dyslexía


Greining

Greining er aðferð til að bera kennsl á frávik eða truflun út frá ákveðnum einkennum. Með greiningu á dyslexíu er stigið skref til þess að koma til móts við námsþarfir einstaklings sem nær ekki þeim tökum á lestri og réttritun sem búast má við að teknu tilliti til aldurs og þroska.

Greiningaraðilar hér á landi eru taugasálfræðingar og Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands. Í greiningarvinnu ganga taugasálfræðingar út frá greindarprófi og taugasálfræðilegum prófum. Greiningin felst í að kortleggja styrkleika og veikleika einstaklingsins og fer fram á forsendum hvers og eins. Starfsmenn Lestrarmiðstöðvarinnar ganga út frá málsálfræðilegum skilgreiningum og í greiningu er leitast við að finna skýringar á einkennum sem koma fram í lestri og stafsetningu, aðallega í máli og hljóðkerfisþáttum. Eftir greiningu er gerð skýrsla um á hvaða sviði erfiðleikarnir eru og gerðar tillögur um úrbætur.

Algengast er að grunn- og framhaldsskólanemendur fari í greiningu hjá Lestrarmiðstöð Kennaraháskólans en erfiðum tilfellum er oftast vísað til taugasálfræðinga. Námsráðgjafar hjá Námsráðgjöf Háskóla Íslands vísa háskólanemum, sem til þeirra leita vegna námsörðugleika, til taugasálfræðinga ef þeir telja að um dyslexíu sé að ræða.

 © 1997