Verkefni í Ýmsum námsörðugleikum


Hrafnhildur Kjartansdóttir og Sigríður Teitsdóttir
Asperger

Asperger heilkennið (Asperger's Syndrome) er kennt við austurríska barna-geðlækninn Hans Asperger, sem árið 1944 setti í ritgerð fram skilgreiningu á „afbrigðilegum persónuleika," sem hann kallaði einhverfar persónuleikatruflanir eða geðvillu (autistic psychopathy).

Asperger heilkenni er taugageðræn fötlun með áberandi félagsleg vandamál frá forskólastigi til fullorðinsaldurs. Ýmsum einkennum hennar svipar til einhverfu og í báðum tilvikum er um gagntækar þroskatruflanir (PDD; pervasive developmental disorders) að ræða, en það er heiti á flokk þar sem taugalíffræðilegt ástand einstaklinga einkennist af skilgreinanlegri töf og fráviki í félagslegum, samskiptalegum og vitsmunalegum þroska.

Flestir gera sér grein fyrir því að meirihluti þeirra sem þetta heilkenni bera hafi sterk einkenni. Orsakir eru hins vegar oft óljósar. Margt bendir þó til að heilkennið byggist á erfðafræðilegum grunni. Við greiningu á Asperger á Íslandi er aðallega stuðst við tvö alþjóðleg greiningarviðmið, hið alþjóðlega ICD–10 og hið bandaríska DSM–IV.

Flest börn með Asperger heilkenni sækja sinn hverfisskóla, og þar, sem annars staðar, þarf að skapa þeim æskilegt umhverfi. Hér á landi standa börnum og unglingum með þetta heilkenni til boða ýmis þjónustuúrræði, sem flestir notfæra sér. Um menntun og réttindi umrædds hóps gilda almenn lög og reglugerðir.

Innan Umsjónarfélags einhverfra starfar hópur foreldra barna með Asperger heilkenni, en félagið berst m.a. fyrir réttindum einstaklinga með það heilkenni. Til að fá skýrari mynd af því hvernig er að ala upp og koma sem best til móts við þarfir barns með þetta heilkenni var haft samband við móður 8 ára drengs og sagði hún reynslusögu, en fötlun sonar hennar hefur haft mikil áhrif á fjölskyldulífið.

© 1997