Sigríður Teitsdóttir
Asperger
Umhverfi
Flest börn með Asperger heilkenni sækja sinn hverfisskóla og þar, sem annars staðar, þarf að skipuleggja umhverfið með tilliti til sérþarfa þeirra.
Reglusemi og skipulagt ferli þarf að vera ríkjandi og kennurum er ráðlagt að finna jafnvægi á milli þess að krefjast, að nemandinn fylgi straumnum, og þess að hann fái tíma og færi á að sinna og þroska með sér sín eigin áhugamál og sjálfsmynd. Störf, þar sem hver dagur líkist öðrum, henta yfirleitt vel, og umburðarlyndi þarf að ríkja. Hér fylgja nokkrar ábendingar um æskilegt umhverfi, og viðeigandi framkomu Asperger börnum til handa.
- Það, sem fram fer í skólastofunni, skal vera eins reglubundið, skipulagt og fyrirsjáanlegt og kostur er. Börnum með Asperger fellur allt óvænt illa. Það ber að búa þau eftir föngum undir breytingar, þ.m.t. breytingar á fyrri áætlunum, frídögum o.s.frv.
- Reglur skulu settar af varfærni. Mörg þessara barna kunna að fylgja reglum mjög „bókstaflega." Skýrar og helst skriflegar reglur og leiðbeiningar eru hjálplegar og skal fylgt eftir á sveigjanlegan hátt.
- Við kennslu skal starfslið nýta sér að fullu séráhugasvið barnsins. Barninu gengur best við lærdóminn, þegar persónuleg áhugamál þess er að finna í námsefninu.
- Í kennslunni ber að halda sér skilmerkilega við efnið. Forðast skal allt það, sem barn með Asperger kann að misskilja, s.s. háð, óræðið tal eða orðatiltæki. Útskýra ber og einfalda óhlutbundin hugtök og lýsingar. Flest þeirra eiga gott með að nýta sér sjónrænt efni, s.s. skemu, kort, skrár, myndir o.s.frv.
- Sjá skal til þess, að öðru starfsliði skólans en því, sem annast sjálfa kennsluna, s.s. iðjuþjálfum, skólabílstjórum og starfsliði mötuneytis og bókasafns sé jafnframt kunnugt um sérstöðu og sérþarfir barnsins, og því hafi verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar varðandi alla umgengni.
- Halda skal hvers kyns valdabaráttu í skefjum. Asperger börn eiga gjarnan erfitt með að meðtaka ósveigjanleg valdboð eða reiði. Sé komið valdsmannlega fram við þau, bregðast þau við af þvermóðsku og stífni. Hegðun Asperger barna getur fyrirvaralítið farið úr böndum, og er þá oft ráðlegast, að starfsfólk gefi eftir og leyfi hlutunum að jafna sig. Best er, ef unnt er að sjá slíkar uppákomur fyrir, og sneiða hjá átökum með því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, s.s. róandi framkomu, samninga, benda á valkosti eða beina athygli barnsins að einhverju öðru.
©1997