Vínarbúinn Hans Asperger fæddist árið 1906 og var kominn af bændafólki. Hann lauk doktorsprófi í læknisfræði árið 1931. Hann kvæntist árið 1935 og eignaðist 4 börn. Árið 1946 varð hann forseti barnalækningardeildar háskólans í Vínarborg og gegndi því starfi í 20 ár. Árið 1977 hlaut hann nafnbótina professor emeritus. Hann lést árið 1980.
Asperger hefur verið lýst sem vinnusömum, alvörugefnum, fjarlægum, lokuðum og sérkennilegum en góðgjörnum manni, sem eignaðist fáa vini og hafði lítinn áhuga á að umgangast annað fólk, og var nokkuð einangraður frá fjölskyldu sinni. Hann hafði hins vegar áhuga á börnum og naut þess að umgangast og sinna skjólstæðingum sínum.
Asperger var virtur fræðimaður og fyrirlesari, sem hafði mikil áhrif á nemendur sína. Eftir hann liggur fjöldi ritsmíða, sem allar voru birtar á þýsku, flestar um einhverfa geðvillu svo og dauðann. Niðurstöður stórmerkilegra vísindalegra rannsókna Asperger á yfir 400 börnum með einhverfa geðvillu,sem upphaflega voru kynntar í ritgerð hans „Einhverf geðvilla hjá börnum" (Die „Autistischen Psychopathen" in Kindesalter), sáu fyrst dagsins ljós árið 1944. Þessari ritgerð var ekki veitt verðskulduð athygli fyrr en árið 1981, þegar Lorna Wing fjallaði um rannsóknir hans. Síðan hefur þetta heilkenni eða persónuleikabrenglun, sem Asperger fékkst við að upplýsa, rannsaka og skýra, borið nafn hans og hróður.
Ritgerð Asperger veitir mikilvæga innsýn í einhverfu og öll afbrigði hennar, þótt hún muni e.t.v. ekki þjóna sem algildur mælikvarði á það, er í framtíðinni verður kallað Asperger heilkenni. Á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hafa frekari klínískar og faraldsfræðilegar rannsóknir farið fram, sem gefa mótaðri mynd af heilkenninu en áður. Fræðimenn og rannsakendur á þessu sviði hafa einnig komið fram með sínar eigin kenningar og skilgreiningar.
©1997