Verkefni í Ýmsum námsörðugleikum


Anna G. Hugadóttir
Heyrnarskerðing

Heyrnarskerðing er talin eitt algengasta heilsufarsvandamál á Íslandi, en með viðeigandi forvörnum, greiningu og meðferð mætti koma í veg fyrir mjög verulegan hluta tilfella og létta raunir flestra þeirra sem skerðast. Fáir skilja til fullnustu þau margslungnu vandamál sem heyrnarskerðingu fylgja og því er oft talað um hana sem ,,ósýnilega fötlun".

Innan raða heyrnarskertra eru skiptar skoðanir um hvort fólk vill líta á sig sem fatlað og falla þannig undir lög um málefni fatlaðra eða sem minnihluta málsamfélag sem hefur táknmál að ,,móðurmáli", en lærir íslensku sem annað mál.

Kennsla alvarlega heyrnarskertra barna á leikskóla- og grunnskólaaldri fer fram í Vesturhlíðarskóla. Að loknum grunnskóla fara margir í Iðnskólann í Reykjavík og nú síðustu árin hefur Menntaskólinn við Hamrahlíð verið að byggja upp nám fyrir heyrnarlausa. Tveir heyrnarskertir nemendur stunda nú nám við Háskóla Íslands. Í framhaldsnámi fer nám heyrnarlausra fram í almennum bekkjum en táknmálstúlkur þýðir jafnharðan það sem sagt er á íslensku.

Þjónusta við heyrnarskerta fer fram hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Ráðgjafarþjónustu Vesturhlíðarskóla. Kirkja heyrnarlausra veitir kirkjulega þjónustu.

Ýmis hagsmunasamtök berjast fyrir bættri stöðu heyrnarskertra, sem dæmi má nefna Félag heyrnarlausra, Félagið Heyrnarhjálp og Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra.

Það er afar mikil persónuleg reynsla að eignast heyrnarlaust barn og ala það upp. Foreldrar kynnast þar nýrri hlið lífsins sem bæði er sársaukafull og gefandi.

©1996