Anna G. Hugadóttir
Heyrnarskerðing


Táknmál

Hjá heyrandi börnum er heyrnin undirstaða þess að þau læri málið, og í gegnum heyrnina fá þau sífellda endurgjöf og örvun við tilraunir sínar til að tala. Heyrnarskert og heyrnarlaus börn þurfa að fá þessa örvun og endurgjöf í gegnum sjónina til að þau geti tileinkað sér táknmál. Mikilvægt er að heyrnarskert börn nái sem fyrst tökum á að tjá sig á táknmáli, þar sem það er talið draga úr hvatvísi, sem sumir telja að einkenni heyrnarlaus börn, ef þau geta tjáð sig og komið tilfinningum sínum á framfæri.

Forsenda þess að örva málþroska heyrnarlausra barna er að þau séu í umhverfi þar sem táknmál er ríkjandi mál. Táknmál er einnig talin mikilvæg undirstaða þess að læra annað mál, hvort sem um er að ræða talmál eða ritmál og lestur, þar sem með táknmálinu eignast einstaklingurinn innra mál til að forma hugsanir sínar.

Oft er talað um táknmál sem ,,móðurmál" heyrnleysingja. Eins og önnur mál á það sér langa sögu og hefur þróast í ýmsum myndum víða um heim. Málfræðirannsóknir hafa sýnt að uppbygging táknmálsins lýtur sömu lögmálum og önnur þróuð mál. Verulegur skyldleiki er með hinum ýmsu greinum táknmáls víða um heim, þótt hvert landssvæði eigi sín sérkenni og jafnvel greinilegar ,,mállýskur". Auk tákna, látbragðs og talfærahreyfinga er svo stuðst við ,,fingrastafrófið" til frekari útlistunar þegar tákn skortir.

Íslenskt táknmál er enn fremur lítt þróað og rannsakað, enda tiltölulega stutt síðan það var viðurkennt sem eðlilegur tjáskiptamáti heyrnleysingja hér á landi. Miklar vonir eru í þessu sambandi bundnar við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, en henni er ætlað að staðla, rannsaka og efla íslenskt táknmál.

Í táknmáli koma bæði tími og rúm við sögu í hreyfingum handa, andlits, augna, höfuðs og annarra líkamshluta, en á þennan hátt eru sum einkenni og reglur málsins táknuð. Hljóðstyrkur, tónhæð, raddbrigði, sérstök orð, orðaröð, endingar orða og orðabreytingar eru notuð í sama skyni í töluðu máli. Ekkert skiljanlegt mál fæst út úr því að raða saman grunntáknum eins og þau eru sýnd í táknmálsorðabókum fremur en ekki fæst skiljanleg íslenska með því að raða saman orðum beint upp úr orðabók. Táknuð orð og töluð geta haft mjög ólíka merkingu, og nokkur tákn geta samsvarað einu töluðu orði og öfugt.

Því er stundum haldið fram að táknmál séu mjög myndræn mál og því sé ekki hægt að tjá með þeim óhlutstæða hugsun og hugtök. Þetta er misskilningur, táknmál bjóða upp á mikla möguleika á tjáningu óhlutstæðra hugtaka og táknmál þróast á þann hátt að tákn sem í upphafi eru myndræn hætta að vera það. Táknmál eru í sífelldri þróun og við notkun ná þau stöðugt meiri fullkomnun. Táknmál eru vel til þess fallin að tjá tilfinningar og því sem gefið er til kynna í töluðu máli með hljóðstyrk, tónhæð og blæbrigðum raddarinnar, er hægt að koma til skila með margbrotnum þrívíðum hreyfingum í táknmáli.

Það tekur álíka langan tíma að tjá sig á táknmáli og á talmáli, og það er ekki erfiðara fyrir heyrnarlaus börn að læra táknmál en fyrir heyrandi börn að læra talmál. Þegar heyrnarlaus eða heyrandi börn alast upp við táknmál, eru þau álíka lengi að ná tökum á málinu og heyrandi börn að ná tökum á talmáli eða jafnvel fljótari, þar sem myndun tákna krefst ekki eins nákvæmrar samhæfingar og tal.

Gamansemi tjáð með táknum og svipbrigðum fellur vel að táknmáli. Mörg orðatiltæki á táknmáli eru frábrugðin orðatiltækjum á talmáli í sama landi, þar sem orðaleikirnir eru ekki miðaðir við leik að töluðum orðum heldur sjónrænum þáttum orðanna. Skop sem tjáð er á talmáli fer því oft forgörðum þegar reynt er að setja það fram á táknmáli og öfugt.

Táknmál hafa sína kosti og galla, eins og önnur tjáskiptaform. Til að nýta möguleika táknmálsins til fulls, þarf nægilega birtu og notkun beggja handa. Ólíkt því þegar hlustað er á talmál verður að horfa gaumgæfilega á þann sem er að tjá sig á táknmáli. Helstu annmarkar á notkun táknmáls eru hversu fáir utan hins þrönga hrings heyrnarlausra og heyrnarskertra hafa vald á málinu, en á því má ráða bót með því að auka táknmálstúlkun í þjóðfélaginu.

Vert er að hafa í huga að notkun tákna eða táknmáls leysir ekki öll vandamál heyrnarlausra barna, því þau geta lent í sömu erfiðleikum og önnur börn. Notkun tákna eða táknmáls getur stuðlað að því að vandamál heyrnarlausra barna verði svipuð vandamálum annarra barna, en ekki komið í veg fyrir þau.

Til baka í frumskjal

©1996