Anna G. Hugadóttir
Heyrnarskerðing


Þjónusta við heyrnarlausa og heyrnarskerta

Á Heyrnar- og talmeinastöðinni fer fram heyrnarmæling og greining heyrnarleysis. Foreldrum er vísað þangað frá fæðingardeild eða heilsugæslu ef grunur um heyrnarskerðingu vaknar. Foreldrar geta einnig snúið sér þangað beint án tilvísunar telji þeir ástæðu til.

Greining fer þannig fram að fyrst er tekin sjúkraskýrsla til að fá fram atriði sem benda til heyrnarskerðingar svo sem hvort heyrnarleysi sé í ættinni, viðkomandi hafi ,,fengið í eyrun", orðið fyrir höfuðáverka eða verið að staðaldri í miklum hávaða. Síðan er framkvæmd heyrnarmæling og læknisskoðun.

Komi heyrnarskerðing í ljós er bent á úrræði, svo sem læknisaðgerð, sé skaðinn þess eðlis að hægt sé að bæta hann á þann hátt, eða heyrnartæki, ef talið er að viðkomandi geti haft not af því. Stöðin sér um úthlutun og viðhald heyrnartækja samkvæmt þeim reglum sem gilda um niðurgreiðslur frá ríkissjóði á hverjum tíma. Börn fá heyrnartæki og rafhlöður ókeypis allt að 18 ára aldri. Almenn skoðun kostar kr.1500, en elli- og örorkulífeyrisþegar og handhafar afsláttarkorta frá Tryggingarstofnun ríkisins fá afslátt.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er að Háaleitisbraut 1, 105 Reykjavík, sími: 5813855. Tímapantanir daglega kl. 14 - 16 í síma: 5813801, bréfasími: 5680055.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra var stofnuð um áramótin 1990-1991og er fyrsta og eina stofnunin sinnar tegundar hér á landi. Hlutverk hennar er að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls. Þetta er gert með rannsóknum á íslensku táknmáli, kennslu táknmáls og táknmálstúlkun auk annarrar þjónustu.

Rannsóknir miðstöðvarinnar eru bæði fræðilegar og hagnýtar og hafa m.a. nýst við framleiðslu námsefnis sem notað er við táknmálskennslu á námskeiðum miðstöðvarinnar, í framhaldsskólum og í Háskóla Íslands.

Samskiptamiðstöðin stendur fyrir reglulegum námskeiðum í táknmáli fyrir almenning. Foreldrar og börn heyrnarlausra geta sótt námskeiðin sér að kostnaðarlausu en annars kosta þau kr. 7000. Hvert námskeið er 21 kennslustund.

Haustið 1994 hófst kennsla í táknmálstúlkun við heimspekideild Háskóla Íslands í samvinnu við Samskiptamiðstöðina. Námið er 60 einingar til B.A. prófs og einnig verður boðið upp á 40 eininga hagnýtt nám í túlkun, samtals 100 einingar.

Samskiptamiðstöðin rekur túlkaþjónustu, bæði táknmáls- og rittúlkun. Mikil eftirspurn er eftir túlkun og því nauðsynlegt að panta tímanlega. Greitt er samkvæmt gjaldskrá.

Stofnanir og stjórnvöld geta samið við Samskiptamiðstöðina um að koma ýmsum upplýsingum á framfæri við heyrnarlausa með því að þýða þær yfir á táknmál og setja á myndbönd.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er að Vesturhlíð 3, 105 Reykjavík, sími: 5627702, textasími: 5627789, bréfasími: 5627714.

Ráðgjafarþjónusta Vesturhlíðarskóla sér um þjónustu við heyrnarskert börn á grunn- og leikskólastigi sem eru í almenna skólakerfinu, alls um 70 börn. Þjónustan felst einkum í að veita ráðgjöf og fræðslu til kennara og foreldra, halda skrá yfir heyrnarskerta nemendur, fylgjast með námsgengi þeirra með samtölum og heimsóknum og dreifa fræðsluefni um heyrnarskerta og heyrnarskerðingu. Fjórum til fimm sinnum á skólaárinu eru haldin námskeið fyrir heyrnarskert börn. Þar er málskilningur þeirra kannaður ítarlega og félagsleg og námsleg staða metin. Einn kennari í hlutastarfi sinnir ráðgjöfinni og er það fjarri því að vera nægileg þjónusta.

Ráðgjafarþjónusta Vesturhlíðaskóla, Vesturhlíð 3, 105 Reykjavík, sími/textasími: 5516750 - 5516755, bréfasími: 5616750.

Kirkja heyrnarlausra er einn þáttur í starfi íslensku þjóðkirkjunnar sem komið var á fyrir atbeina Félags heyrnarlausra og Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra. Kirkjulegt starf hófst árið 1979 en árið 1981var fyrsti heyrnleysingjapresturinn vígður. Almennar guðsþjónustur eru haldnar einu sinni í mánuði og auk þess annast presturinn alla aðra kirkjulega þjónustu, barnastarf og starf meðal aldraðra. Kirkjukór heyrnarlausra annast söng á táknmáli. Helgihald fer fram í Áskirkju en kirkja heyrnarlausra hefur aðsetur í Hallgrímskirkju.

Kirkja heyrnarlausra Hallgrímskirkju Skólavörðuhæð, 101 Reykjavík, sími: 5510745 og 5621475. Presturinn, sr. Miyako Þórðarson, hefur viðtalstíma þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17:00-18:00

Til baka í frumskjal

©1996