Anna G. Hugadóttir
Heyrnarskerðing


Heyrnarskerðing

Þegar rætt er um heyrnarskerðingu dettur fólki oftast í hug eldra fólk með heyrnartæki. Þetta er þó ekki svona einfalt því heyrnarskerðing getur komið fram á öllum aldri og verið á mismunandi stigi, allt frá lítilli skerðingu yfir í algjört heyrnarleysi. Hversu alvarlegar afleiðingarnar verða fer eftir því hversu mikil skerðingin er og hvenær hún kemur fram. Alvarlegast er þegar börn fæðast mjög heyrnarskert eða heyrnarlaus.

Þeir sem hafa svo litlar heyrnarleifar að þær nýtast illa eða ekki til almennra tjáskipta, þrátt fyrir bestu fáanleg hjálpartæki, teljast heyrnarlausir, en þeir sem búa við minni skerðingu teljast heyrnarskertir. Talið er að 10 - 12 % Íslendinga undir fimmtugu eigi við einhver vandkvæði að stríða af þessum sökum og að á hverjum tíma séu 6 - 7 % barna á skólaaldri með skerta heyrn. Að sjálfsögðu er heyrnarskerðing algengust meðal aldraðra, en erfitt er að fullyrða um hversu algeng hún er í þeirra hópi. Reynt hefur verið að meta heyrnarskerðingu og flokka í prósentuflokka, en eðlilegra þykir að meta hana út frá getu einstaklingsins til að bjarga sér í daglegu lífi með viðeigandi hjápartækjum.

Einkennum heyrnarskerðingar má skipta í tvo flokka: leiðslutap og skyntaugatap. Leiðslutap er skerðing á leiðslukerfi eyrans og er bundið við ytra eyra og mið eyra. Einkenni þess eru að hljóð virðast of dauf, en hægt er að heyra nánast eðlilega með hæfilegri mögnun, og oft er einnig hægt að ráða bót á leiðslutapi með læknisaðgerðum.

Skyntaugatap á sér rætur í innra eyra og einkenni þess eru mun flóknari, því að ekki er einungis um að ræða skertan styrk, heldur einnig töluverða bjögun hljóða, einkum ef um bakgrunnshávaða er að ræða. Oftast er um varanlegar skemmdir að ræða, þar sem enn er ekki hægt að gera læknisaðgerðir á innra eyra. Stundum er hægt að koma til hjálpar með sérstökum heyrnartækjum, ef um einhverjar heyrnarleifar er að ræða, en þeir sem verst eru settir eru metnir heyrnarlausir.

Þegar börn fæðast heyrnarlaus skiptir miklu máli að heyrnarleysið uppgötvist fljótt til að hægt sé að bregðast við því með kennslu táknmáls, og nú fara allir nýburar í gegnum leitarpróf á fæðingardeild í þessu skyni. Heyrnarlausir foreldrar virðast eiga auðveldara með að viðurkenna heyrnarleysi hjá börnum sínum en heyrandi foreldrar, og þeir geta strax farið að hafa tjáskipti við börn sín þar sem táknmál er þeim eiginlegt.

Heyrandi foreldrar þurfa hins vegar strax að hefja nám í táknmáli til að geta haft samskipti við börn sín. Heyrnarleysið hefur þannig mikil áhrif á fjölskylduna og heimilislífið. Það hefur einnig víðtæk áhrif á daglegt líf og afkomu fjölskyldunnar því börnin þurfa sem fyrst að komast í skóla til að læra táknmál og aðeins einn slíkur skóli er á Íslandi, Vesturhlíðarskóli.

Skólinn er í Reykjavík og því þurfa fjölskyldur af landsbyggðinni oft að flytja búferlum til að börnin geti notið bestu mögulegrar þjónustu.

Könnun sem gerð var á félagslegri stöðu heyrnarlausra árið 1988 leiddi í ljós að þessi hópur er fremur einangraður í samfélaginu en hefur mikil samskipti innbyrðis og við nánustu fjölskyldu. Makaval heyrnarlausra er einnig að miklum meirihluta innan hópsins. Meira en helmingur þeirra sem svöruðu könnuninni er virkur á vinnumarkaði og er meirihluti þeirra ófaglært verka- og afgreiðslufólk. Þeir skipa lægstu launaflokkana, karlar eru heldur hærri í launum en konur, og afleiðing þessara lágu launa er að þeir búa í mjög þröngu húsnæði.

Ætla má að skýringin á fábreyttu starfsvali sé menntunarskortur en fram að þessu hafa heyrnarlausir einkum lagt fyrir sig iðnnám og húsmæðranám. Stundum hefur verið talið að þeir ættu erfitt með bóknám, en nú virðist að skortur á námsleiðum hafi fremur valdið fábreytninni. Ítarlegri upplýsingar um skólamál heyrnarskertra er að fá í kafla um skólamál.

Heyrandi börn heyrnarlausra foreldra eiga við annars konar vanda að stríða en heyrnarlaus börn. Mikil ábyrgð lendir fljótt á þeim við að sjá um samskipti fjölskyldunnar við umheiminn og þurfa þau oft að aðstoða foreldra sína við ýmiss konar málarekstur. Þetta stafar af því að mikill skortur er á táknmálstúlkun í þjóðfélaginu og væri hægt að létta þessum börnum lífið, væri aðgangur að túlkun aukinn.

Hér að framan hafa verið dregnir fram fremur neikvæðir þættir sem snerta líf heyrnarlausra, en í köflum um þjónustu og hagsmunasamtök er að finna ýmislegt jákvæðara. Þar er gerð grein fyrir þeirri þjónustu sem heyrnarlausum stendur til boða og sagt frá hagsmunasamtökum sem berjast fyrir rétti þeirra. Mikið félagsstarf er á vegum samtaka heyrnarlausra og þeir láta víða að sér kveða. Þess má geta að heyrnarlaus maður hefur setið í borgarstjórn Reykjavíkur og nýlega var heyrnarlaus kona ráðin skólastjóri Vesturhlíðarskóla.

Fróðlegt er að velta fyrir sér spurningunni hvort heyrnarleysi sé í raun fötlun eða hvort hinum heyrnarlausu sé þröngvað inn í þessa stöðu vegna félagslegra aðstæðna. Í samfélögum, þar sem heyrnarleysi er tiltölulega algengt, hefur komið upp sú staða að heyrandi íbúar verða tvítyngdir og tala táknmál og talmál jöfnum höndum. Þegar slík staða kemur upp virðist heyrnarleysið verða aukaatriði. Hætt er að flokka fólk eftir því hvort það heyrir eða ekki, en farið er að flokka það eftir starfsstéttum eða öðrum aðferðum sem tíðkast í samfélaginu. Þarna virðist augljóst að þegar samskiptin hætta að vera hindrun hættir heyrnarleysið að vera fötlun.

Hér hefur fátt eitt, sem varðar heyrnarskerðingu verið tínt til, en vegna þeirra sem hafa áhuga á að kynna sér betur málefni heyrnarlausra bendi ég hér á nokkrar bækur sem varpað geta skýrara ljósi á málið.

Til baka í frumskjal

©1996