Vesturhlíðarskóli er eini leikskóli og grunnskóli heyrnarlausra og alvarlega heyrnarskertra barna á Íslandi. Börnin koma í leikskólann svo fljótt sem verða má eftir tilvísun frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, oft á fyrsta ári. Skólagöngu lýkur við sextán ára aldur en þó er heimilt að framlengja grunnskólanám um tvö ár. Í skólanum geta því verið börn og unglingar á aldrinum 0 - 18 ára. Skólaárið 1995-96 voru í skólanum 33 börn fædd á árunum 1979-1994. Vesturhlíðarskóli er einsetinn heildagsskóli sem opinn er nemendum alla virka daga frá kl. 8:00 - 17:00. Skólinn starfrækir mötuneyti og félagsmiðstöðin Stjörnubær er opin eftir skólatíma alla virka daga vikunnar.
Vesturhlíðarskóli er elsti sérskóli á Íslandi og rekur sögu sína aftur til 1867, en þá var fyrst veitt heimild til að taka heyrnarlaus börn til náms. Skólinn fékk núverandi sérbyggð húsakynni árið 1972. Mikill kostur er að á lóð skólans eru Samskiptamiðstöðin og Vinahlíð, dvalarheimili aldraðra, einnig staðsett, þannig að nemendur geta átt samskipti við heyrnarlaust fólk á öllum aldri.
Áður giltu sérstök lög um Vesturhlíðarskóla en nú starfar hann samkvæmt leikskóla- og grunnskólalögum ásamt reglugerð um sérkennslu.
Kennarar Vesturhlíðarskóla hafa margir hlotið sérmenntun í kennslu heyrnarlausra að loknu almennu kennaraprófi. Tveir leikskólakennarar og þrír grunnskólakennarar, sem starfa við skólann, eru heyrnarlausir.
Kennslan tekur mið af aðalnámskrá grunnskóla eins og unnt er. Allar helstu námsgreinar eru kenndar í skólanum, en það tefur námið að lítið er til af námsefni á táknmáli. Mikil áhersla er á málanám, bæði í táknmáli og íslensku, þar sem skólinn hefur tvítyngi að leiðarljósi. Leitast er við að auka lesskilning nemenda á íslensku ritmáli, en íslensku og táknmáli er haldið aðgreindum í kennslustundum. Ávallt hefur verið lögð rækt við skapandi verkefni á sviði list- og verkgreina og auk þess eru kenndar nokkrar námsgreinar sem tengjast heyrnarlausum og þekkjast ekki í öðrum skólum, svo sem táknmál, saga heyrnarlausra og fræði heyrnarlausra. Flestir nemendur fá talkennslu og heyrnarþjálfun í einkatímum.
Að loknu grunnskólaprófi geta nemendur stundað nám við Iðnskólann í Reykjavík, en stundum hefur gengið erfiðlega að koma heyrnarlausum nemum á samning hjá meisturum til að þeir geti lokið sveinsprófi. Þeir, sem hyggja á frekara bóklegt nám, eiga nú kost á sérstakri námsbraut í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Tveir heyrnarskertir nemendur stunda um þessar mundir nám við Háskóla Íslands.
©1996