Sama hvaða tölfræðiaðferð er notuð við tilgátuprófanir, það eru alltaf líkur á því að gerð séu höfnunar- eða fastheldnimistök. Líkurnar á þessum mistökum eru ákveðnar fyrirfram þegar α-mörk eru sett (oftast 0,05). Eftir því sem tilgátum fjölgar því minni vörn veitir α=0,05 gegn höfnunarmistökum. Það er vegna þess að við fjölgun tilgáta í sömu rannsókninni þá safnast alfamörkin upp. Þessa uppsöfnun er hægt að reikna út með Bonferroni ójöfnunni:
P(1 eða fleiri marktækir)≤ c×α
Þar sem c er fjöldi samanburða.
Bonferroni leiðréttingin er notuð til þess að minnka líkurnar á höfnunarmistökum. Þegar Bonferroni leiðréttingin er notuð þá eru alfamörk hvers prófs minnkuð þannig að tryggt sé að heildaráhættan fyrir nokkrar prófanir sé aldrei meiri en α (t.d. 0,05). Líkurnar á að einn eða fleiri atburðir gerist verður því aldrei hærri en samanlögð líkindi þeirra. Jafnan er einföld eða:
α´=α/c
Einfaldast er að nota Bonferroni leiðréttinguna á fyrirfram samanburði en einnig er hægt að nota hana á eftir á samanburði. Leiðréttinguna er hægt að nota á paraða samanburði. Gallinn á ójöfnunni er að hún ofmetur eilítið líkindi þess að marktekt verði en aðferð Dunn-Šidák leiðréttir þetta.
Flest tölfræðiforrit hafa möguleikann á því að reikna Bonferroni leiðréttinguna fyrir samanburði. Í SPSS er hægt að reikna Bonferroni fyrir eftir á samanburði og eru niðurstöður birtar í töflum. Það gerir túlkun tiltölulega auðvelda. .
© 2004 Ingibjörg Sif Antonsdóttir