Verkefni í Ýmsum námsörðugleikum


Una B. Bjarnadóttir
Aðstoðarkerfi fatlaðra í Menntaskólanum við Hamrahlíð

Viðhorf til fatlaðra hafa breyst mikið á síðustu 10-15 árum. Áður fyrr fóru mikið fatlaðir ekki í framhaldsskóla. Í dag þykir mun sjálfsagðara að blöndun fatlaðra og ófatlaðra nemenda eigi sér stað í skólunum. Samkvæmt Lögum um framhaldsskóla frá 1996 er talað um að hlutverk framhaldsskóla sé m.a. að "stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verð sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi". Í dag eru ekki margir framhaldsskólar sem bjóða fatlaða nemendur velkomna. Segja má að skólamál fatlaðra séu í góðum farvegi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, þar sem 34 líkamlega fatlaðir nemendur stunda nám í vetur. Nemendurnir koma allsstaðar að. Flestir koma af höfuðborgarsvæðinu. Blindir og sjónskertir koma úr Álftamýrarskóla, heyrnarlausir og heyrnarskertir úr Vesturhlíðaskóla og hreyfihamlaðir koma úr Hlíðaskóla. Þeir fylgja sömu námskrá og ófatlaðir nemendur. Að jafnaði fylgja þeir ófötluðu nemendunum í kennslustundum, en geta í stöku tilfellum þurft á einkakennslu að halda

Stjórnun námshraða er einstaklingsbundin og miðast við þarfir hvers og eins. Námsefnið þarf stundum að aðlaga, sem dæmi um það er að blindir geta ekki notað smásjá, kröfurnar eru samt sem áður jafnmiklar. Til þess að þessir nemendur geti tileinkað sér námsefni samkvæmt námskrá , fá þeir tæknilega aðstoð sem fötlun þeirra krefst. Menntamálaráðherra hefur lagt til að Menntaskólinn við Hamrahlíð verði gerður að kjarnaskóla fyrir fatlaða. Í skólanum hefur skapast svokallað táknmálsumhverfi, vegna þess að um 30 kennarar og starfsfólk skólans hafa farið á táknmálsnámskeið. Kennslustjóri fatlaðra við Menntaskólann í Hamrahlíð er Ágústa Unnur Gunnarsdóttir námsráðgjafi. Hún hefur unnið ötullega að bættum aðbúnaði fatlaðra við skólann undanfarin ár. Nýlega barst hróður hennar um Evrópusamfélagið þegar hún vann silfurverðlaun í samkeppni um bestu verkefni til aðstoðar fötluðum. Þessi samkeppni var á vegum HELIOS 2, sem er heiti á víðtækri samstarfsáætlun á sviði málefna fatlaðra innan ESB OG EFTA-ríkjanna.

©1996