Una B. Bjarnadóttir
Aðstoðarkerfi fatlaðra í Menntaskólanum við Hamrahlíð


Heyrnarlausir og heyrnarskertir nemendur

Heyrnarlausir og heyrnarskertir nemendur koma úr Vesturhlíðaskóla í Reykjavík sem er sérskóli fyrir nemendur með þessa fötlun. Einangrun þeirra sem eru heyrnarlausir eða heyrnarskertir getur verið mikil. Almennt eru menn ekki sammála um hvað telst eðlileg heyrn. Hinsvegar er gerður munur á heyrnarskertum og heyrnarlausum. Heyrnarskerðing telst ákveðin frávik frá eðlilegri heyrn. Heyrnleysingjar teljast hinsvegar þeir sem hafa litlar eða engar heyrnarleifar sem nýtast til tjáskipta almennt. Þess vegna gegnir Samskiptamiðstöð þeirra miklu máli. Hún var stofnuð um áramót 1990-1991, og er fyrsta og eina stofnunin sinnar tegundar hér á landi. Lögfest aðalmarkmið Samskiptamiðstöðvarinnar er að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls. Samskiptamiðstöðin sér Menntaskólanum í Hamrahlíð fyrir táknmálstúlkum. Í stuttu máli þýða þeir íslenskt talmál yfir á sýnilegt mál og öfugt . Sýnilega málið er í flestum tilvikum íslenskt táknmál. Táknmálið er mál þar sem ákveðnar bendingar, handahreyfingar og svipbrigði tákna töluð orð. Árið 1993 hófst kennsla í íslensku táknmáli í Menntaskólanum við Hamrahlíð fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa og þá fengu heyrnarlausir í fyrsta skipti skipulagða kennslu á móðurmáli sínu. Árið 1995 var síðan stofnuð ný námsbraut fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta.

Frekari upplýsingar um heyrnarleysi og heyrnarskerðingu má fá í Sálfræðibókinni.

©1996