Una B. Bjarnadóttir
Aðstoðarkerfi fatlaðra í Menntaskólanum við Hamrahlíð


Blöndun

Blöndunarstefnan felur í sér að draga úr félagslegri mismunun og binda enda á útilokun fatlaðra nemenda frá framhaldsskólum og einangrun þeirra í sérskólum og sérdeildum. Náskylt blöndunarhugtakinu er "normalisering" sem í þessu sambandi merkir að fatlaðir eigi að lifa sem venjulegustu lífi varðandi möguleika til menntunar, starfa húsnæðis og búsetu. Hugmyndir um blöndun vöknuðu þegar fólk fór að átta sig á þeirri einangrun og hindrunum sem gátu skapast í sérskólum og á stofnunum. Dóra S. Bjarnason , dósent við Kennaraháskóla Íslands , segir m.a. um blöndun: Hugtakið blöndun ( integration ) felur í sér að gefa fötluðum og ófötluðum einstaklingum tækifæri til að vera meðlimir í samfélagi þar sem aðskilnaður í lífi og starfi er sem minnstur. Blöndunarstefnan byggist á kröfu um aukin mannréttindi til handa fötluðum einstaklingum, meðal annars að þeir séu ekki einangraðir í samfélaginu. Stefnan gerir ráð fyrir að fatlaðir hafi rétt á að búa í samfélagi með ófötluðum og njóta sambærilegra lífsgæða. Blöndun snýst þó ekki eingöngu um rétt fatlaðra heldur nær hún til alls samfélagsins, skipulags þess og mannréttinda allra þegna.

Frekari upplýsingar um blöndun er hægt að fá í Þroskahjálp, tímariti Landssamtaka um þroskahjálp.

©1996