Lestregða (dyslexia) er eitt form námserfiðleika sem hefur á síðustu árum fengið æ meiri athygli í skólakerfinu. Framhaldsskólar landsins hafa þurft að bregðast við því að þangað koma nemendur sem eru illa staddir námslega. Sumir þeirra eiga erfitt með lestur, skrift og stafsetningu og er hægt að skilgreina þá sem lestrega. Lestregir falla ekki undir lög um fatlaða en í reglugerð með framhaldsskólalögum er kveðið á um að veita skuli þeim sem stríða við lestrar- eða skriftarerfiðleika sérkennslu. Úrræði í framhaldsskólum má skipta í tvo flokka. Annars vegar er nemendum boðið upp á aðstoð sem miðar að því að auðvelda þeim námið og hins vegar er veitt kennsla með það að markmiði að yfirvinna vandann. Gagnrýna má framhaldsskólana suma hverja fyrir úrræðaleysi þessum hópi til handa. Einnig eru leiðirnar sem farnar eru ákaflega fjölbreyttar og þjónustan sem veitt er mjög misjöfn milli skóla. Samræmingu vantar þannig að lestregir sitji við sama borð og aðrir nemendur þegar þeir ákveða sitt framhaldsnám. Leit að lestregum í framhaldsskólunum fer þannig fram í sumum tilfellum að leitað er eftir upplýsingum um nemendur við upphaf náms frá grunnskólunum, foreldrum eða nemendunum sjálfum. Einnig eru notuð próf sem miða að því að finna þá sem aðstoð þurfa og er þá prófaður lestur, lesskilningur og stafsetning. Gagnrýni á leit að lestregum í framhaldsskólum er að hluta til sú sama og gagnrýni á úrræðin bæði vantar samræmingu og markvissa stefnu. Auk þess sem ýmis aðferðafræðileg álitamál koma upp við leit að þeim lestregu.
©1996