Í lögum um framhaldsskóla, samþykktum í júní 1996, segir í 2.grein "Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi". Úr þessu má lesa þá yfirlýstu stefnu stjórnvalda að framhaldsskólinn skuli vera fyrir alla. 19. grein sama laga kveður á um að fötluðum skuli veita kennslu og sérstakan stuðning. Fatlaðir nemendur eru þeir sem skilgreinast fatlaðir samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Lestregir falla ekki undir þessa skilgreiningu. Í reglugerð um framhaldsskóla frá 1991 segir að sérkennari skuli starfa við alla framhaldsskóla og eitt af hlutverkum hans á að vera að "annast kennslu og ráðgjöf nemenda vegna sértækra lestrar- og skriftarörðugleika". Nýju lögin tóku gildi 1. ágúst 1996 og eiga að vera komin að fullu til framkvæmda við upphaf skólaársins 2000-2001. Þegar þetta er skrifað er ekki búið að gefa út reglugerð með nýju lögunum, þannig að reglugerðin frá 1991 gildir uns ný reglugerð sem nær yfir málefni lestregra lýtur dagsins ljós.
©1996