Helga Tryggvadóttir
Lestregða í framhaldsskólum


Úrræði í framhaldsskólum

Hvað varðar úrræði fyrir lestrega í framhaldsskólum má skipta þeim í tvo flokka. Annars vegar eru farnar ýmsar leiðir til að auðvelda nemendum skólagönguna og hins vegar er nemendum veitt kennsla sem miðar að því að vinna bug á vandanum. Til hins fyrra má telja aðstoð í prófum, sem getur falið í sér að nemendur fá að taka munnleg próf, þeir fá lestraraðstoð, stækkað letur á prófblaði, lengdan próftíma eða að nemandi svarar prófinu á tölvu. Í sumum skólum eru nemendur þjálfaðir í notkun tölva og leiðréttingarforrita sem auðveldar þeim námið. Þegar sú leið er farin að veita lestregum nemendum kennslu til að yfirvinna vandann eru ýmsar aðferðir notaðar. Sérkennsla er veitt í vélritum, tölvunotkun, stafsetningu, hljóðgreiningu, notuð eru lesgleraugu, mismunandi litar glærur og sumir fara þá leið að kenna hraðlestur. Taka skal fram að enginn einn skóli er með öll þessi úrræði og þær tvær leiðir sem nefndar eru hér að ofan skarast bæði innan skóla og milli þeirra. Hjá Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands er veitt þjónusta fyrir lestrega framhaldsskólanemendur. Þar er hægt að greina vandann og gefa út vottorð sem veitir rétt til þess að fá hljóðbækur hjá Blindrabókasafninu. Mismunandi form er á þeim úrræðum sem fyrir hendi eru. Sums staðar er um einstaklingskennslu að ræða og annarsstaðar er aðstoðin veitt í hópum. Einnig er mismunandi eftir skólum hver annast kennsluna, getur það verið sérkennari, námsráðgjafi eða íslenskukennari.

©1996