Verkefni í Ýmsum námsörðugleikum


Helga María Guðmundsdóttir
Tourette heilkenni

Tourette heilkenni (Tourette syndrome) er sjúkdómur í miðtaugakerfi og er hann talinn arfgengur. Hann lýsir sér í ósjálfráðum, síendurteknum snöggum hreyfingum eða kækjum og hljóðum. Sjúkdómnum getur fylgt einbeitingarskortur, ofvirkni og námserfiðleikar. Fyrstu einkenni birtast yfirleitt á forskólaaldri eða á aldrinum 2-15 ára. Hann er mun algengari hjá drengjum en stúlkum.

Þegar Tourette samtökin á Íslandi voru stofnuð fyrir um sex árum síðan höfðu fáir heyrt minnst á þennan sjúkdóm hér á landi. Markmið samtakanna er m.a að standa vörð um hagsmuni einstaklinga með Tourette heilkenni og fjölskyldna þeirra og vinna að viðurkenningu samfélagsins á sjúkdómnum.

Í lögum og reglugerðum fyrir gunnskóla eru skýr ákvæði um að börn og unglingar sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika eigi rétt á sérstökum stuðningi í námi. Félagslegir erfiðleikar eru eitt helsta vandamál barna og unglinga með Tourette heilkenni og skólaganga þeirra getur því verið þeim þungstíg.

Börnum og unglingum með Tourette heilkenni er hægt að kenna með árangursríkum hætti eins og öðrum sem eiga við einhverskonar vandamál að stríða í námi. En þá þarf að koma til skilningur á því að um er að ræða líkamlegan sjúkdóm sem mjög erfitt eða útilokað er að stjórna og líða vel á sama tíma.

Í viðtali við átján ára stúlku með Tourette heilkenni kemur m.a. fram að það hafi verið ákveðinn léttir þegar hún tólf ára gömul var greind með sjúkdóminn Tourette heilkenni. Þar kemur einnig fram að það sé hægt að takast á við sjúkdóminn með jákvæðu hugarfari en það sé erfitt að sætta sig við hann.

© 1997