Helga María Guðmundsdóttir
Tourette heilkenni


Tourette heilkenni og skólinn.

Í Lögum um grunnskóla frá 1995 segir m.a. í 2. grein að grunnskólinn skuli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.

Í 37. grein sömu laga kemur m.a. fram að börn og unglingar sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika eigi rétt á sérstökum stuðningi í námi.

Í reglugerð um sérkennslu frá 1996 er nánar greint frá framkvæmd 37. greinar grunnskólalaganna. Þar er skýrt kveðið á um í 2. grein reglugerðarinnar að skipuleggja skuli skólastarfið í heild út frá þörfum allra nemenda og skapa námsumhverfi sem hæfir hverjum og einum.

Þó ekki sé sérstaklega minnst á börn með Tourette heilkenni í lögum og reglugerðum ber skólanum að koma til móts við þarfir þeirra eins og allra annarra barna sem eiga við einhverja erfiðleika að stríða.

Börn með Tourette heilkenni hafa yfirleitt eðlilega greind. Það sem getur skert námshæfileika þeirra er einbeitingarskortur eða vandamál sem tengjast ofvirkni og átáttu-og þráhyggjuhegðun. Einnig geta sum lyfjanna sem notuð eru við sjúkdómnum valdið sljóvgun og þannig dregið úr námsárangri. Börn með Tourette heilkenni geta átt í erfiðleikum með skrifleg verkefni vegna þess að þau ná ekki að stilla saman fínhreyfingar handa og einbeitingu auk þess sem kækirnir geta komið þar við sögu. Þá geta hjálpartæki eins og tölva og segulband komið í góðar þarfir og létt verulega nám þeirra.

Kennari þarf að leggja rækt við samheldni í bekknum og sjálfsvirðingu einstaklinganna og vinna þar með gegn þeirri félagslegu einangrun og stríðni sem börn með Tourette heilkenni eiga á hættu að verða fyrir.

Kennsluverkefni þarf að leggja fyrir með tilliti til einstaklingsins. Börn með Tourette heilkenni þurfa oft lengri tíma við að ljúka við verkefni. Því þurfa þau að fá verkefni sem ekki eru of tímafrek og gefa þarf fyrirmæli með hæfilegu millibili. Gefa þarf hvíld t.d. í formi hreyfingar á milli verkefna.

Flestum börnum með Tourette heilkenni gengur best að læra þar sem skólastarf og námsumhverfi er vel skipulagt. Þau þyrftu að eiga ákveðið afdrep í skólanum þangað sem þau geta farið ef einkenni sjúkdómsins eru mikil og þau vilja ekki að óviðkomandi horfi á kækina eða heyri hljóðin.

Börn með Tourette heilkenni þurfa umfram allt að mæta skilningi og virðingu í skólanum.

©1997