Öryggisbil er nokkurs konar öryggisnet sem við notum þegar við getum ekki beinlínis mælt tiltekna eiginleika í öllu þýðinu og verðum að láta okkur nægja að meta þá með því að mæla þá í úrtaki. Við mælum því ákveðinn eiginleika í úrtakinu og notum niðurstöðurnar til að draga ályktanir eða meta sama eiginleika innan þýðisins. Dæmi: Ef við höfum áhuga á að vita meðalþyngd 10 ára stúlkna í Bandaríkjunum þá væri mjög óhentugt að vigta þær allar. Við veljum því að taka 100 stúlkur (úrtak), vigtum þær og finnum út að meðalþyngd þeirra er 40 kíló og staðalfrávikið 15 kíló. Þetta úrtaksmeðaltal, 40 kíló, er því ein mæling (point estimate) á meðaltali í þýðinu. Þessi eina mæling er takmörkuð vegna þess að hún gefur ekki til kynna þá óvissu sem tengist matinu, það er við vitum ekki hve langt þetta úrtaksmeðaltal er frá þýðismeðaltalinu. Til dæmis getum við ekki vitað hvort þýðismeðaltalið sé 35 kíló, 45 kíló eða eitthvað annað.
Villa er til staðar í hvert skipti sem úrtak er tekið í rannsóknum. Öryggisbil byggist á því hve staðalvilla mælinga er stór í gagnasafninu okkar. Öryggisbil segir okkur því hversu nákvæmlega úrtaksgildið okkar spáir fyrir um hin raunverulegu gildi í þýðinu (til dæmis meðaltal, staðalfrávik eða fylgni). Ef við reiknum öryggisbil í kringum úrtaksmeðaltalið þá getum við sagt með meiri vissu hvar þýðismeðaltalið liggur. Öryggisbil gefa okkur því meiri upplýsingar en úrtaksmeðaltalið eitt og sér. Oftast er reiknað út 95% eða 99% öryggisbil. Ef við notum 95% öryggisbil þá er niðurstaðan túlkuð þannig að við getum sagt með 95% öryggi að þýðistalan liggi á þessu bili. Vikmörk eru neðri og efri mörk öryggisbilsins, það er þau gildi sem gefa spönn öryggisbilsins til kynna.
© 2004 Sandra Guðlaug Zarif