Þáttagreining er tölfræðiaðferð sem lýsir innbyrðistengslum breyta með einum eða fleiri þáttum. Hver þáttur eru tvær eða fleiri breytur sem eru innbyrðistengdar, þ.e. breyturnar hafa háa innbyrðisfylgni. Hver þáttur inniheldur þær breytur sem endurspegla sömu hugsmíðina. Þátturinn lýsir því fylgnifylkinu á einfaldari og skilvirkari hátt. Þegar búið er að draga út þætti í þáttagreiningu er hægt að skýra megnið af dreifingunni með tiltölulega fáum undirliggjandi þáttum.
Við gerð þáttagreiningar er mikilvægt að draga út réttan fjölda af þáttum. Ákvörðunin um hvaða fjölda þátta á að hafa í lausninni er jafnvel talin sú mikilvægasta við gerð þáttagreiningar, því tilgangur þáttagreiningar er að lýsa fylgnifylkinu á sem einfaldastan og skýrastan hátt.
Almenna reglan er sú að draga frekar út of marga heldur en of fáa þætti. Gallinn við það að draga út of marga þætti er að þótt að aðalþættirnir verði líklega með góðar hleðslur þá verða líka aðrir illa skilgreindir þættir með í lausninni. Þessa illa skilgreindu þætti er jafnvel erfitt að túlka og birtast ekki í endurgerð þáttagreiningarinnar. Alvarlegra er þó að draga of fáa þætti út því þá er líklegt að þáttagreininginn gefi lélega spá um þáttabyggingu fylgnifylkinisins. Þá glatast mikilvægar upplýsingar vegna þess að litið getur verið framhjá þætti eða hann sameinaður öðrum þætti. Þegar verið er að ákvarða fjölda þátta er því gott að gera líka þáttagreiningu með of mörgum þáttum og of fáum þáttum og nota niðurstöður þeirra þáttagreininga til þess að rökstyðja þann fjölda þátta sem dregin er út.
Til þess að ákvarða fjölda þátta er oft stuðst við: 1. Viðmið Kaisers 2. Skriðupróf 3. Parallel analysis.
Flestir fræðimenn eru sammála því að Parallel analysis er sú aðferð sem gefur besta mynd að fjölda þátta sem á að draga út í þáttagreiningu. En sú algenga aðferð að styðjast við viðmið Kaisers og skriðupróf gefur venjulega góða mynd að þáttabyggingu gagnasafnsins. Mikilvægt er að skoða líka hverja þáttagreiningu fyrir sig með tilliti til kenninga, tölfræði og hagnýtra sjónarmiða. Þannig að ef einhver kenning er að baki eða innihald þáttanna gefa til kynna annan fjölda en viðmiðin gefa þarf að taka tillit til þess. Viðmiðin eru ekki algild og á því aðeins að nota sem þumalfingursreglur.
© 2004 Berglind Sigríður Ásgeirsdóttir