Fjöldi þátta sem á að draga út í þáttagreiningu Skriðupróf

Til þess að ákvarða hversu marga þætti á að draga út í þáttagreiningu getur verið gott að styðjast við skriðupróf (scree-test). Skriðupróf er myndræn framsetning á þáttum og eigingildum þeirra. Þættirnir eru settir á X-ásinn og eigingildi á Y-ásinn. Skriðuprófið sýnir hver hraðinn á breytingu eigingilda þátta er. Eigingildi minnka hratt milli fyrstu þáttanna en jafnast svo út.

Þar sem meiri dreifni er óskýrð þegar fyrri þættir eru dregnir út heldur en þeir seinni þá skýra þeir fyrri meiri dreifni heldur en þeir seinni. Þess vegna er línan á skriðuprófinu neikvætt hallandi (negative slope). Á skriðuprófinu myndast nokkurs konar olbogi, eða punktur þar sem línan beygir. Myndin í heild sinni líkist því handlegg þar sem olboginn gefur til kynna hámarks fjölda þátta sem á að draga út. Með öðrum orðum er lesið úr myndritinu þannig að fjöldi þátta áður en línan breytir um stefnu gefur til kynna hvaða hámarks fjöldi þátta á að vera í lausninni.

Hér fyrir neðan er dæmi um skriðupróf og túlkun þess.

Hér á að koma mynd af skriðuprófi

Til þess að lesa út úr skriðuprófinu könnum við hvar hallinn á línunni fer að jafnast út. Þetta skriðupróf gefur til kynna að draga á út tvo þætti þar sem brattinn á línunni er orðinn nokkuð jafn eftir annan þátt.

Skriðupróf hefur verið gagnrýnt fyrir það að túlkunin feli í sér huglægt mat vegna þess að meta þarf myndrænar niðurstöður. Gögnin eru ekki alltaf skýr og oft er erfitt að meta hvenær línan breytir um stefnu. Þetta á sérstaklega við þegar gagnasöfnin eru lítil og þegar breyturnar eru fáar í hlutfalli við þætti. Notkun skriðuprófs til þess að meta fjölda þátta er þó mjög algengt og rannsóknir hafa sýnt að næst á eftir viðmiði Kaisers er algengast er að nota bæði skriðupróf og viðmið Kaisers.