Anna K. Newton
Unglingar og þunglyndi


Framhaldsskólalög

Í framhaldsskólalögum frá 1995 er sagt að: Nemendum í framhaldsskóla skal standa til boða ráðgjöf og leiðsögn um náms- og starfsval og persónuleg mál er snerta nám þeirra og skólavist. Slíka þjónustu veita námsráðgjafar, kennarar og annað starfsfólk eftir því sem við á. Þarna er ekki nákvæmlega farið út í hvernig eigi að eiga við þessi mál en yfirleitt er námsráðgjafi starfandi í framhaldsskólum sem annast flest þeirra náms- og persónulega mála sem upp koma. Í lögum er einnig sagt frá að í hverjum skóla skuli vera hjúkrunarfræðingur sem annast heilsuvernd nemenda. Talað er um bæði líkamlega og andlega heilsu. Í starfslýsingu umsjónarkennara er tilgreint að hlutverk hans er að fylgjast með námsferli nemandans og hvernig honum gengur að aðlagast félagslega innan bekkjarins. Í mörgum tilfellum er það umsjónarkennarinn sem stígur fyrsta skrefið og fær nemandann til að íhuga hegðun sína. Þegar persónulegur vandi nemenda kemur í ljós leitast skólarnir almennt við að leysa vandamál nemandans í samráði við hann, en þegar um er að ræða erfiðleika eins og þunglyndi er ekki hægt að ætlast til að skólinn geti leyst það. Yfirleitt reyna skólarnir að koma einstaklingnum til sérfræðings sem er betur í stakk búinn til að hjálpa honum að eiga við þunglyndið.

©1996