Venjulegun er hugtak sem vísar til þess að reyna að gera líf þess þroskahamlaða eða fatlaða sem líkast venjulegu" lífi. Venjulegum tekur meðal annars til búsetu, menntunar og starfa þroskahamlaðra.
Áður fyrr var foreldrum þroskahamlaðra barna oft ráðlagt að senda þau sem fyrst á stofnanir á borð við Kópavogshæli og Sólheima. Nú verður það æ algengara að börnin búi heima fram á seinni hluta unglingsáranna og flytji síðan á sambýli. Sambýlin líkjast meira venjulegum heimilum en stofnun. Aðbúnaður þroskahamlaðra í dag er því líkari því sem gerist hjá heilbrigðum en áður var.
Venjulegun í menntakerfinu felst í því að hver einstaklingur fái menntun sem best hentar honum miðað við greind og aðlögunarhæfni. Miðað er að því að menntunin sé sem líkust þeirri menntun sem heilbrigð börn og ungmenni fá. Fyrir suma gæti venjulegun því falist í því að sækja almennan skóla og fá þar sérkennslu. Fyrir aðra gæti venjulegun hins vegar falist í því að stunda nám í skóla á borð við Öskjuhlíðarskóla.
Þroskahömluðum hefur einnig verið gert kleift að stunda vinnu. Sumir þroskahamlaðir geta unnið á almennum vinnumarkaði. Sumum þeim sem ekki geta það býðst vinna á vernduðum vinnustöðum.
Venjulegun felst því ekki í einni lausn sem gengur fyrir alla. Fremur er reynt að sjá hvernig best er að hjálpa hverjum og einum með tilliti til færni, greindar og aðlögunarhæfni.
©1996