Ingibjörg Sigurjónsdóttir
Þroskahamlaðir


Aðlögunarhæfni

Þegar fjallað er um aðlögunarhæfni er átt við hversu vel einstaklingum tekst að takast á við nauðsynleg verkefni daglegs lífs. Til að meta þetta hefur meðal annars verið notaður svokallaður ABS spurningalisti (adaptive behavior scale). Foreldrar, kennarar, starfsfólk sambýla eða aðrir þeir sem þekkja vel til viðkomandi einstaklings eru þar beðnir um að svara spurningum um færni einstaklingsins. Í fyrri hluta listans eru spurningar um getu einstaklinganna til sjálfshjálpar. Þar á meðal er spurt um hreinlæti, heimilisstörf, meðferð fjármuna, matarvenjur og fleira. Í seinni hluta listans er spurt um félagslega hæfni einstaklingsins. Spurningar í þeim hluta fjalla um samskipti við aðra, aðlögun að reglum, áreiðanleika/traust, kynhegðun, sjálfsskaðandi eða undarlega hegðun og félagslega þátttöku. Við greiningu á þroskahömlun er nauðsynlegt að taka tillit til aðlögunarhæfni til jafns við greind. Einstaklingur sem er með greindarvísitölu 70 en mjög skerta aðlögunarhæfni getur verið mun verr staddur en einstaklingur með greindarvísitölu 60 og lítt skerta aðlögunarhæfni.

©1996