Ólöf Benediktsdóttir
Ofvirkni


Lög og reglugerðir leikskóla

Lög og reglugerðir leikskóla sem lúta að þeim börnum sem þurfa á sérstakri þjálfun að halda.

VI. KAFLI

Réttur leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar. Ráðgjafarþjónusta.

15. gr.

Börn á leikskólaaldri, sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, eiga rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga.

16. gr.

Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla skal veita foreldrum barna og starfsfólki leikskóla nauðsynlega ráðgjöf og þjónustu sem nánar verður kveðið á um í reglugerð um starfssvið þjónustunnar. Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla getur verið rekin sameiginlega með ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla.

VII. KAFLI

Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta.

20. gr.

Öllum sveitarfélögum, er standa að rekstri leikskóla eða hafa heimilað rekstur leikskóla, er skylt að sjá leikskólum fyrir ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, sbr. 15. Og 16. gr. Laga nr. 78/1994.

Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta getur, eftir aðstæðum á hverjum stað, verið skipulögð sem sértök þjónusta á vegum sveitarfélaga, sem hluti af annarri ráðgjafarþjónustu eða sameiginlega með ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla.

Áhersla skal lögð á að starfsmenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu hafi uppeldis- og sálfræðimenntun með sérþekkingu á málefnum barna á leikskólaaldri.

Sveitarfélögum ber að tryggja að starfsmenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla hafi yfir öðrum sérfræðingum að ráða.

21.gr.

Starfshættir ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla skulu mótast af heildarsýn á barnið og allar aðstæður þess.

Starfsmenn ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu skulu vinna að forvarnarstarfi með athugunum og greiningu á börnum sem eiga í sálrænum eða félagslegum erfiðleikum og koma með tillögur um úrbætur. Leikskólastjóri og forsjáraðilar geta óskað eftir slíkri athugun. Á grundvelli greiningar vísar ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta á viðeigandi úrræði.

Þá skal ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta gefa forsjáraðilum og leikskólakennurum kost á ráðgjöf og leiðbeiningu um uppeldi og menntun barna eftir því sem aðstæður leyfa.

VIII. KAFLI

Aðstoð og þjálfun leikskólabarna

22. gr.

Telji leikskólastjóri, leikskólakennari og forsjáraðilar að barn þarfnist sérstakrar aðstoðar eða þjálfunar til að geta notið leikskóladvalar sem best, ber þeim að hafa samráð um hvort unnt sé að leysa málið innan leikskólans og/eða hvort leitað skuli til ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu. Verði aðilar sammála um að leita eftir slíkri þjónustu, er leikskólastjóra skylt að hafa þar forgöngu.

Meginstefna skal vera sú að þessi aðstoð og/eða þjálfun fari fram í leikskóla barnsins.

23. gr.

Leikskólastjóri ábyrgist að gerðar séu áætlanir, sem byggja á uppeldisáætlun leikskóla, fyrir hvert barn er þarf sérstaka aðstoð og þjálfun. Áætlanir skulu stuðla að því að auka færni barnsins miðað við þroskastig þess.

Leikskóalstjóri/leikskóalkennarar skipuleggja í samráði við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu sérstaka aðstoð og þjálfun barna í leikskólanum. Ávallt skal taka tillit til heildaraðstæðna barnsins, hvort sem aðstoðin eða þjálfunin er sniðin að einstaklingi eða hópi barna.

Til baka í frumskjal

©1996