Hugrún B. Hafliðadóttir
Málfarslegir erfiðleikar barna


Þjónusta

Mikilvægt er að málfarslegir erfiðleikar uppgötvist snemma svo að hægt sé að gera viðeigandi meðferðarráðstafanir. Foreldrar og fagfólk á heilsugæslustöðvum, dagvistarstofnunum og í skólum eru þau sem fyrst taka eftir málfari barna og gruna að um seinkaðan eða skertan málþroska sé að ræða. Þegar um er að ræða barn á leikskólaaldri eru það læknar, talmeinafræðingar, sálfræðingar og þroskaþjálfarar sem sjá um greiningu vandamálsins og að setja fram meðferðarúrræði. Í flestum tilvikum er haft samband við Dagvist barna en þegar um alvarlegri tilvik er að ræða er börnum yfirleitt vísað til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Á Heyrnar- og talmeinastöð Reykjavíkur er hægt að fá athugun og greiningu og ábendingar um meðferð eða tilvísun til sérfræðinga. Sérfræðingar stöðvarinnar fara einnig út á land til athugana og greininga. Þjálfun barnsins í leikskólanum er í höndum þroskaþjálfara og/eða leikskólakennara. Þjálfunin einkennist m.a. af málörvun og meðferðum við framburðargöllum. Á þeim leikskólum sem ekki er starfandi þroskaþjálfari og fáir leikskólakennarar hafa foreldrar þurft að kaupa sér þjónustu talmeinafræðinga á einkastofum.

Í grunnskólum eru það sérkennarar, talkennarar, skólasálfræðingar og starfsfólk heilsugæslu skólans sem framkvæma greiningu og framfylgja markvissri þjálfun. Flest börn með málfarslega erfiðleika eru í venjulegum bekkjardeildum, en fá tal- og sérkennslu hjá talkennurum og sérkennurum. Börn með alvarlega málhömlun, tengdri eða ótengdri annarri afbrigðilegri þroskahömlun eru oftast í sérskólum, á borð við Hlíðaskóla. Þjónusta talkennara í grunnskólum er mjög takmörkuð, áætlaður er 1 talkennslutími á hverja 100 nemendur. Miðað við hversu algengt vandamálið er meðal ungra skólabarna er það naumlega skammtað.