Hugrún B. Hafliðadóttir
Málfarslegir erfiðleikar barna


Málfarslegir erfiðleikar

Gerður er greinarmunur á mál- og talgöllum. Málgallar tengjast málskilningi og máltöku en talgallar máltjáningu. Ef málskilningur og eðlileg máltaka er skert á hlustandi erfitt með að skilja barnið vegna þess að framburður þess, orðaforði, setningauppbygging og talandi víkur langt frá því sem telst venjulegt fyrir aldur barnsins. Algengustu erfiðleikarnir við máltjáningu eru framburðargallar og stam. Framburðargallar einkennast af truflunum í myndun orða og hljóða. Barnið segir t.d. ,,sljór" í stað ,,sjór" ,notar ,,t" í stað ,,k" eða á erfitt með að segja ,,s" eða ,,r". Stam er þegar tal er slitrótt eða hikandi á þann hátt að framburður orðs truflast af því að hljóð eða atkvæði eru endurtekin. Hljóðmyndunarerfiðleikar eru til komnir vegna galla eða sjúkdóms í líffærum sem stjórna myndun hljóða.

Tegundir málfarslegra erfiðleika eru þrjár. Í fyrsta lagi málhömlun sem felur í sér að umtalsverð frávik sé að ræða í þróun málskilnings og/eða máltjáningar. Í öðru lagi málstol sem er skerðing eða missir hæfileikans til að skilja mál og að tala vegna skaða á málstöðvum heilans. Í þriðja lagi eru málfarslegir erfiðleikar tengdir öðru afbrigðilegu þroskamynstri, eins og heyrnarskerðingu, þroskahömlun eða einhverfu.

Orsakir eru annað hvort líkamlegar eða vegna umhverfisaðstæðna (stafrænar). Sem dæmi eru gallar í líffærum tengdum tali, heyrnarleysi, heilaskaði og seinþroski eða skerðing í uppbyggingu og starfsemi málsvæða heilans. Umhverfisaðstæður eins og einangrun, tilfinninga- og geðrænir erfiðleikar, skortur á málörvun og lærð hegðun geta orsakað seinan málþroska eða framburðargalla.