Ólafur Finnbogason
Grunnskólanemendur með lestregðu
Lestregða í einum skóla á höfuðborgarsvæðinu
Fljótlega eftir skólabyrjun að hausti leggja sérkennari, talkennari og almennur kennari þar til gerð próf fyrir 6 ára nemendur og aðra nýja nemendur við skólann til að meta námsgetu þeirra. Að fengnum þessum upplýsingum liggur fyrir hvaða nemendur eiga m.a. við lestrarörðugleika að etja og hve alvarlegir þeir eru. Nú sníða sérkennarar aðstoðina að þörfum hvers og eins og þó tímamagn til sérkennslu sé takmarkað er alltaf reynt að koma til móts við þá nemendur sem eru með lestregðu. Fyrirkomulag aðstoðarinnar er þannig að nemendurnir fara út úr sínum bekk og í lesver. Þar eru þeir oftast 2 - 3 í einu sem eru með lestregðu á svipuðu stigi og aðstoðin felst mikið í ýmiss konar námsleikjum. Sérkennarinn leggur áherslu á fjölbreytni verkefnanna og fara þau eftir aldri og getu nemendanna. Þeir yngstu æfa mikið einföld sérhljóða- og samhljóðasambönd á fjölbreyttan hátt, æfa málnotkun eftir Markvissri málörvun, vinna í Sögusmiðju og lestrarforritum í tölvu en þegar fram í sækir hefst lestur mjög einfaldra texta, fyrst án samhljóðasambanda. Um og eftir 10 ára aldur er áherslan á að þjálfa lestur með léttlestrarbókum. Á tveggja mánaða fresti er síðan öll sérkennslan endurskoðuð, nemendur prófaðir og metnir að nýju með framhaldið í huga.