Í 37. grein Laga um grunnskóla frá 1995 segir m.a. að öll þau börn og unglingar sem vegna sértækra námsörðugleika, félags- eða tilfinningalegra örðugleika og/eða fötlunar eigi rétt á sérstökum stuðningi í námi. Jafnframt segir að meginstefnan skuli vera sú að þessi stuðningur fari fram í heimaskóla nemandans en hægt sé að sækja um skólavist í sérskóla telji foreldrar/forráðamenn, kennarar eða aðrir sérfræðingar að nemandinn hljóti ekki kennslu við hæfi í sínum heimaskóla. Í Reglugerð um sérkennslu frá 1996 er greint nánar frá framkvæmd 37. greinar grunnskólalaganna. Þar segir frá markmiðum og skilgreiningu sérkennslu, athugun á þörf fyrir sérkennslu, réttindum nemenda og foreldra og/eða forráðamanna, skipan sérkennslu, sjúkrakennslu, starfsmönnum, sérskólum og sérdeildum og kennslumagni.