Lestregða er hugtak yfir sértæka námsörðugleika sem einkum birtast sem erfiðleikar í lestri eða stafsetningu, eru eðlislægir að uppruna og virðast eiga sér taugafræðilegar orsakir. Ekki eru menn þó á einu máli um nákvæmar orsakir lestregðu og aðrir en líffræðilegir orsakaþættir geta verið tilfinningalegir, félagslegir og kennslufræðilegir. Rannsóknir sýna að erfiðleikarnir virðast liggja í misbresti í sjónrænu og hljóðrænu ferli þ.e. einstaklingurinn á í erfiðleikum með að tengja á milli rittákns og hljóðs og öfugt. Hann á sem dæmi í erfiðleikum með að greina mun á hljóðum í sama orðflokk einsog t.d. lokhljóðanna b, d, p og t, sérhljóðanna a, e, og u, hann fellir m.a. úr stafi í lestrinum, fellir út atkvæði, víxlar stöfum t.d. frænka/frækna, greinir ekki setningu sem hann heyrir í orð og á erfitt með að skilja flókin munnleg fyrirmæli. Þessir erfiðleikar leiða til námsörðugleika sem virðast vera óskyldir almennri greind einstaklingsins og ef þeir eru á háu stigi geta verið honum mjög erfiðir og komið niður á almennu námi hans og félagslegri færni. Rannsóknir sýna að einstaklingar með lestregðu eiga meiri tilhneigingu til að eiga við hegðunarvandkvæði að stríða í skóla, sýna ekki frumkvæði í vinnu, eiga erfitt með einbeitingu og vera óvinsælir meðal jafnaldra í samanburði við þá sem eiga ekki í námsörðugleikum. Jafnframt er algengt að einstaklingana skorti sjálfsöryggi og hafi neikvæða sjálfsmynd.