Við sérdeildina í Langhlotsskóla eru fimm drengir og umsjónarmaður hennar er Bjarnveig Bjarnadóttir. Drengirnir eru fæddir árin ’88 og ’89 og eru því 8 og 9 ára eða í 2. og 3. bekk. Þeir eru ekki nema að litlu leiti með sínum árgöngum en mismikið þó. 2 sitja t.a.m.tíma í stærðfræði og lestri með bekknum, 3 þeirra fara í leikfimi og allir fara þeir í smíði og myndmennt með sínum bekk. Að öðru leiti eru þeir í sérdeildinni sem er opin frá 8 – 15. Þar er unnið eftir TEACCH aðferðinni sem byggir á sjónrænni og vel skipulagðri kennslu. Svo til öll fyrirmæli eru á miðum með texta og mynd sem hengd eru upp með frönskum rennilás á þar til gerð spjöld. Þegar nemendurnir mæta á staðinn er við nafnið þeirra hjá snaganum listi yfir þær athafnir sem fram þurfa að fara, t.d. stendur á efsta miðanum fara úr úlpu þegar því er lokið rífa þau þann miða af og stinga í vasa sem hangir neðst á spjaldinu, svo athuga þau hvað stendur á næsta miða t.d. fara úr skóm o.s.frv. Á neðsta miðanum stendur svo tafla sem þýðir að þeir fara beint að stundatöflunni til að vita hvað er framundan. Á stóru spjaldi upp á vegg er stundatafla hvers og eins þar sem þeir strika jafnóðum yfir þau verkefni sem lokið er. Hvert verkefni/athöfn fer fram á ákveðnum stað í stofunni, t.d. er ákveðinn leikkrókur, faðmkrókur, leskrókur, vinnukrókur o.s.frv. Þegar þau hafa séð á töflunni hvert þau eiga fara fást þau við verkefnin í þeim krók og í vinnukrókunum er einnig myndrænt fyrirkomulag hvað atburðarrás varðar. Þ.e. ákveðin spjöld eru upp á vegg sem standa fyrir ákveðna vinnu, þau finna verkefnakassann með eins spjaldi, taka spjaldið og hengja það við hliðina á hinu meðan á þeirri vinnu stendur. Þegar því verkefni er lokið er tiltekið spjald tekið niður og næsti kassi fundinn og svo koll af kolli. Á síðasta spjaldinu stendur svo tafla sem þýðir að þau eigi að fara að töflunni, strika yfir það sem þau voru að gera og athuga næsta lið. Í les- og leikkrók þar sem ekki er um slíkt að ræða er stillt á þau klukka sem hringir þegar þau eiga að hætta á þeim stað. Í faðmkróknum er setið með þau og haldið utan um þau. "Við höldum þétt utan um þau, þau vilja láta halda utan um sig og þarfnast þess" segir Bjarnveig og sagði ennfremur að þau sæktust mjög eftir því.
Mikil breidd er hvað varðar getu þessara fimm drengja og eru verkefnin sérstaklega aðlöguð fyrir hvern og einn, sömuleiðis eru fyrrnefnd spjöld sem þeir rekja sig eftir í vinnu misjafnlega hönnuð, fyrir þá sem geta lesið er texti og en fyrir hina ákveðin tákn. Í eldhúsinu er sömu sögu að segja, við sæti þess sem getur skrifað eru setningar upp á vegg þar sem hann getur séð hvernig hann á að skrifa það sem hann vill fá og hefur hann tússtöflu sem hann skrifar á, aðrir hafa myndir sem þeir benda á en allir eru þeir mjög málhamlaðir eins og svo algengt er með einhverfa. Við matarborðið hjá þeim yngsta eru sett fyrirmæli eins og að drekka, borða o.s.frv. og svo að síðustu fyrirmælin tafla, "annars myndi hann bara sitja hérna allan daginn jafnvel" bætir Bjarnveig við. Þessi aðferð virðist eiga vel við drengina og það mikla skipulag sem henni fylgir veitir þeim öryggi og þeir hafa náð framförum, það sem þeir eru að gera í sérdeildinni virðist hjálpa þeim við önnur verkefni í daglega lífinu en aðferðin miðar einmitt sérstaklega að því.
Í sérdeildinni er einnig herbergi sem starfsmenn geta farið með einn í einu og veitt honum séraðstoð. Þetta herbergi er einnig notað fyrir samverustund. Þá hengja eru hengdar upp myndir á ákveðnum stað í herberginu þannig að strákarnir sjá alltaf hvað þau eru að fara gera og hvað tekur við af hverju. Samverustundin byrjar alltaf á því að þau tala saman og endar með söng.
Auk sérdeildarinnar í Langholtskóla eru einnig sérdeildir fyrir einhverfa í Hamraskóla í Grafarvogi, þar sem einnig eru fimm nemendur og í Digranesskóla í Kópavogi sem er stærsta og elsta deildin. Í þeirri síðast nefndu eru 11 nemendur og skiptist deildin nokkurn veginn í þrennt, yngri og eldri deild og svo nokkurs konar sérdeild innan sérdeildarinnar þar sem eru tveir einstaklingar sem þurfa mikla hjálp og eru alltaf með tvo meðferðaraðila með sér, þ.e. kennara og uppeldisfræðing. Sérdeildirnar við þessa grunnskóla starfa allar með hliðsjón af TEACCH meðferðinni en í Digranesskóla er vinnan með suma nemendurna þar að auki meira tengd námsefninu í almennu bekkjardeildunum.
©1997