Dagný Erla Vilbergsdóttir
Einhverfa


Meðferðarúrræði

Þau megin meðferðarúrræði sem notuð eru, bæði hérlendis og erlendis til að bæta árangur og líðan einhverfra barna eru eftirfarandi:

Atferlismeðferð:

Atferlismeðferð felst í því að móta hegðun einstaklingsins með því að styrkja viðeigandi hegðun eða draga úr óviðeigandi hegðun. Upphafsmaður atferlismeðferðarinnar fyrir einhverf börn er prófessor Ivar Lovaas. Meðferðin leggur áherslu á að börnin læri að nota tungumálið til tjáskipta. Mikilvægt er að meðferðin hefjist á unga aldri, æskilegast innan við 42 mánaða aldur. Gert er ráð fyrir 40 klst. þjálfun á viku í 2 – 3 ár. Meðferðin á að fara fram í venjulegu leikskólaumhverfi en að mestu með einstaklingsbundinni þjálfun í upphafi. Smám saman fari barnið svo að taka meiri og meiri þátt í venjubundnu starfi á sinni deild. Niðurstöður sem birtar voru úr rannsóknum Lovaas 1987 sýndu að 47% þeirra sem fengu atferlismeðferð náðu bata, þau luku 1. bekk barnaskóla án sérstakrar aðstoðar og sýndu eðlilega námsframvindu, svo og eðlilegan félagsþroska. Greindarvísitala þátttakenda hækkaði að meðaltali um 30 greindarvísitölustig.

Þessi meðferð var ekki í boði í meðferð opinberra aðila á Íslandi fyrr en á síðasta ári og er nú það meðferðarúrræði sem íslenskir leikskólar vinna eftir en fram að því höfðu þeir unnið með hliðsjón af TEACCH aðferðinni.

TEACCH aðferðin:

TEACCH aðferðin er meðferð og kennsla fyrir einhverfa og aðra með skyldar boðskiptahamlanir. Hún tekur tillit til þeirra þátta sem mikilvægast er að þjálfa hjá allflestum einhverfum og er skipulag lykilorðið í þeirri aðferðarfræði, skipulagið felur í sér; að verkefni og aðstæður séu sjónrænt greinileg, greinilegt upphaf og endir viðfangsefna, yfirfærslu á námi, endurtekningu, sjálfstæði og foreldravinnu. Aðstæður einhverfra eru þannig skipulagðar eftir TEACCH aðferðinni að þeir skilji hvar þeir eiga að vera, hvenær þeir eiga að framkvæma tiltekna athöfn og hvenær þeir eiga að fara annað. Skipulagið veitir einhverfu einstaklingunum öryggi, meiri einbeitingu og að lokum betri sjálfstjórn. Aðalhugmyndin í meðferðinni er að barnið og einhverfa þess sé virt og tekið sé tímanlega í taumana þannig að hægt sé að komast hjá erfiðleikum sem koma upp hjá einhverfum einstaklingum ef þeim er ekki sýndur skilningur og umhyggja. Aðferðin byggir á því að notfæra styrkleika einhverfu barnanna til að byggja frekara nám á. Þetta er sú aðferða sem íslenskir grunnskólar vinna eftir.

The Son-Rise Program:

The Son-Rise Program byggir á árangursríkri meðferð hjóna (Kaufmann hjónanna) með einhverft barn sitt sem nú ber engin sýnileg einkenni einhverfu og er nýútskifaður úr virtum háskóla. Aðalhugmyndin í meðferðinni er að barnið og einhverfa þess sé virt og ekkert gert gegn vilja þess. Framkvæmdin er sambland eftirhermu, atferlisstefnu og ástúðar og er sett upp sérstök dagskrá fyrir viðkomandi fjöskyldu frá vikutíma upp í 6 mánuði þar sem forgangsverkefnum er raðað upp eftir einkennum hvers barns.

Heyrnaraðlögun (Auditory training):

Heyrnaraðlögun er þjálfunarmeðferð til að aðstoða fólk með skerta heyrn en talið er að einhverfir hafi skertar (ruglaðar) skynjanir. Það lýsir sér í skertum hæfileikum til að skynja sitt nánasta umhverfi svo sem skert snertiskyn, heyrn, lykt, bragð og sjón. Þ.a.l. brenglað veruleikaskyn, óeðlileg hegðun og þroski. Sumir einhverfra eru ofurnæmir fyrir hljóðum úr ákveðnum tíðnisviðum, sem veldur þeim óþægindum og óeðlilegri framkomu.

Þessi heyrnarmeðferð er framkv. þannig að með aðstoð tækis eru valin há- og lágtíðnihljóð úr tónlist og send beint í eyra viðkomandi með eyrnarfónum (þau hljóð sem viðkomandi er með ofurnæmi fyrir eru síuð burt). Þjálfunin stendur yfir í 10 daga, tvisvar á dag, hálftíma í senn.

Hljóðstyrkurinn er fyrst sendur jafnt á bæði eyrun svo meira á hægra eyra því það örvar vinstri hluta heilans sem er ráðandi fyrir hæfileika manna til að geta talað og skilið mál. Með þessu er vonast til að viðkomandi geti numið hljóð jafnt með báðum eyrum og unnið úr þeim eðlilega. Auk þess er reynt að vinna í því að lækka ofurnæmi einstaklignsins fyrir ákv. hljóðum svo honum líði betur. Þessi meðferð fer fram í Montreal og London.

Snertiörvun:

Rannsóknir staðfesta að snertimeðferð beri góðan árangur. Móðirin heldur á barninu þar til það hættir að streitast á móti og sættir sig við að vera faðmað. Meðferðin ber mestan árangur með þátttöku einhvers sem er barninu nákominn. Mælt er með því að barnið sé smám saman vanið við snertimeðferðina til þess að forðast að spenna það upp. Það þarf að fara varlega til þess að það verði ekki hrætt. Heilaskaðinn sem barnið hefur orðið fyrir á fósturskeiði er sennilega orsökin fyrir því að það forðast snertingu og faðmlög. Því lengur sem barnið er án snertingar því meira skemmist sá hluti heilans sem stjórnar snertingu og félagslegum þroska.

Aðrar leiðir

Ýmsar aðrar leiðir, eins og vítamín- og steinefnakúrar, matarræði (t.d. glútein og mjólkurlaust fæði) og líkamsþjálfun af ýmsu tagi, hafa einnig gefist vel.

Fólk sem vinnur með einhverf börn skyldi forðast að falla í þá gryfju að nota eingöngu eina tegund meðferðar. Þeir meðferðarstaðir fyrir einhverfa sem ná bestum árangri nota margar af sömu aðferðunum þó þeir fari ef til vill eftir ólíkum kenningum. Árangursrík meðferð er líka ströng. Meðferð skyldi hefja um leið og óeðlileg hegðun kemur í ljós. Mikilvægasti hluti allrar meðferðar er ástríkt fólk sem vinnur með barnið.

©1997