Ekkert barn þroskast eins og það sama má segja um börn með Down heilkenni. Þau eru mun lengur að ná ýmsum þroskastigum en heilbrigð börn. Þannig eru þau lengur að byrja að tala, skríða, ganga og halda sér þurrum. Allflestir ná það miklum þroska að þeir geti bjargað sér sjálfir við athafnir daglegs lífs. Sumir læra að lesa og skrifa og gengur vel með það en aðrir ná aldrei þeirri færni.
Vitsmunaþroski þessara einstaklinga er skertur en þó mismikið. Sumir hafa greindarvísitölu um 70-75 en aðrir hafa lægri greindarvísitölu, jafnvel mikið lægri.
Mikilvægt er að barnið fái þjálfun sem allra fyrst sem nær til allra skynjunarþátta. Reynt er að hefja þjálfun strax í frumbernsku og felst hún í að örva alla skynjunarþætti hjá barninu. Þjálfunin er oftast í höndum sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og foreldra. Þegar barnið er orðið eldra er mikil áhersla lögð á almenna færni í daglegu lífi, til dæmis að geta klætt sig, farið einn í skóla, geta meðhöndlað peninga, versla inn, borða o.s frv.
Stór hópur barna með Down heilkenni hefur erfiðleika á sviði máltjáningar. Í þeim tilvikum er skilningur á talmáli oft betri en tal eða tjáning. Þá er börnunum oft kennt svokallað táknmál með tali" þar sem einfaldar hreyfingar úr táknmáli eru notaðar einar sér eða notaðar með tali til að örva talmál.
©1997