Ýmis lög kveða á um réttindi fatlaðra og jafnrétti þeirra til skólagöngu.
Markmið með lögum um málefni fatlaðra er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra í þjóðfélaginu. Kveðið er á um að fatlaðir eigi rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Einnig segir þar að leitast skuli við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar, heilbrigðis og félagsþjónustu.
Í lögum um leikskóla segir að börn sem vegna fötlunar sinnar þurfi á sérstakri aðstoð að halda, skuli fá hana innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga.
Í lögum um grunnskóla er kveðið á um að skólinn skuli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.
Í lögum um framhaldsskóla segir að veita skuli fötluðum nemendum kennslu og sérstakan stuðning í námi. Ef þurfa þykir skal veitt sérfræðileg aðstoð. Einnig er tilgreint að fatlaðir skuli stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.
Þessi lög eru skýr gagnvart einstaklingum með Down heilkenni og sýna að þeir hafa jafnan rétt til menntunar eins og heilbrigðir einstaklingar. En þó fatlaðir eigi fullan rétt á almennri skólagöngu verður að hafa velferð þeirra í fyrirrúmi þegar verið er að velja þeim skóla.
©1997