Guðrún Oddsdóttir
Einhverfa og leikskóli


Reynslusaga

Palli er fæddur snemma árs 1991, verður því brátt sex ára. Um þriggja ára afmælið var hann greindur með alvarlega einhverfu. Upp frá því var hann tvö ár á leikskóla þar sem hann hlaut TEACCH meðferð. Fimm ára gamall talaði Palli ekkert og hafði svo til engin félagsleg tengsl eða samskipti. Hann hafði mjög takmarkaðan áhuga á umhverfi sínu, nema á hlutum sem hann nýtti til sjálfsörvunar, þannig gat hann sullað í vatni eða krumpað plastpoka tímum saman. Palli er auk einhverfunnar með ofvirknieinkenni, árátta í sjálfsörvunarhluti og tjáningarleysi hans leiddi því oft til skapofsakasta þegar hann gat ekki tjáð vilja sinn né skilið rök annarra.

Fyrir ári síðan tóku foreldrar Palla hann út af leikskóla þar sem þeim fannst TEACCH meðferðin ekki gagnast honum og leikskólakerfið vildi ekki koma til móts við kröfur þeirra um að fá atferlisþjálfun. Móðir Palla hóf þá að þjálfa hann ein og sér heima við. Tvennt vildi til happs, annars vegar var fyrirmynd af Lovaas atferlisþjálfun í heimahúsi í nágrannasveitafélagi og voru aðstandendur hennar boðnir og búnir að leiðbeina við þjálfun Palla. Hins vegar fékkst norsk meðferðarstofnun til að taka að sér yfirumsjón meðferðarinnar og senda á 6-8 vikna fresti umsjónaraðila til að gæðastýra og skipuleggja starfið. Auk þess sem haft er vikulegt fax- og símasamband við umsjónaraðila út af ýmsu sem komið getur upp á.

Þannig vildi til að um síðustu áramót réð fjölskylda Palla þjálfara sem ýmist hafa verið þroskaþjálfara, sálfræðimenntaðir eða í sálfræðinámi. Upp frá því hefur Palli verið þjálfaður 6 tíma á dag virka daga (tveir þjálfarar í einu), upphaflega var líka stíf þjálfun um helgar, en þar sem foreldrar hans hafa þurft að bera allan kostnað af meðferðinni var ákveðið að móðir hans þjálfaði hann ein 2-3 tíma á dag um helgar.

Gríðarlegt starf hefur verið unnið með Palla, fyrst ber að nefna að núna hefur hann mun meiri athygli og veitir athygli þáttum í umhverfi sínu sem hann hefði aldrei tekið eftir áður. Hann hlýðir fyrirmælum t.d. „farðu til Önnu" og „dansa", hann er að læra að leika sér t.d. í lestarleik og með kubba. Palli þekkir tugi eða hundruð hluta hvort sem er á mynd eða sem hlut og parar saman myndir og hluti. Svona mætti lengi telja, en það sem er markverðast er talfærni Palla, hann kann nú öll hljóð nema á, ú og ó, marga tugi af samstöfum (d. ba, ro, os), á annan tug þrístafa (d. fis, gaf, mis) og um fjörutíu orð (d. bíl, lit, rör) af orðunum eru um tuttugu sem hann ræður við í nefnun (þjálfari sýnir honum hlut og spyr „hvað er þetta?" og Palli svarar!).

Á síðasta ári hafa aftur á móti orðið þær stefnubreytingar hjá Dagvist að þjálfunaráherslur hafa færst frá TEACCH yfir í atferlismeðferð. Palli er þessa daga að byrja aftur í leikskóla. Hann verður heima á morgnana og hlýtur þá sína 3ja tíma morgunþjálfun, en fer í skólann eftir hádegi. Í leikskólanum verður Palli með sérkennslumenntaðan leikskólakennara út af fyrir sig, og fær atferlisþjálfun í tvo tíma (þá kemur þjálfari frá foreldrum Palla og vinnur með sérkennaranum).

Á einu ári hefur Palli tekið framförum sem hefðu líklega verið óhugsandi hefðu foreldrar hans ekki tekið hann út af leikskóla og hafið þjálfun heima. Núna er útlit fyrir að þjálfun hans haldi áfram inni á leikskóla, þó svo heildarþjálfunartími skerðist um einn tíma. Þess ber þó að gæta að áfram eru það foreldrar Palla sem bera kostnað af morgunþjálfun og þjálfara sem vinnur með sérkennara.

Það er því ljóst að stefna í leikskólamálum einhverfra hefur tekið rétta stefnu en á enn langt í land.

©1996