Tölfræði IIISkilaverkefni 3: Þáttagreining

Gættu þess að byggja verkefnið á þessari lýsingu og réttri gagnaskrá. Verkefni breytast milli ára. Við getum ekki tekið gild verkefni byggð á gömlum verkefnislýsingum eða gögnum fyrri ára.

Verkefnið er lauslega byggt á rannsókninni Dimensions of the Beck Depression Inventory-II in clinically depressed outpatients (Steer, Ball, Ranieri og Beck 1999). Greinina getur þú nálgast í tímaritaskrá Landsbókasafns eða með leitarvél, t.d. Google Scholar, en athugaðu að gögnin í verkefninu eru að miklu leyti frábrugðin þeim sem notuð eru í upprunalegu rannsókninni.

Mundu að gera greinarmun á landsaðgangi og Háskólaaðgangi. Greinar í landsaðgangi eru aðgengilegar frá öllum tölvum á Íslandi. Greinar sem eru í Háskólaaðgangi eru aðeins aðgengilegar af Háskólanetinu, þ.e. frá Háskóla Íslands eða með VPN-tengingu við Háskóla Íslands.

Beck Depression Inventory (BDI) er spurningalisti sem ætlað er að meta alvarleika þunglyndis. Listinn var þróaður af Aaron T. Beck út frá hugrænni sálfræði og fyrsta útgáfa hans var gefin út árið 1961. Nýjasta útgáfa listans (BDI-II) var þáttagreind með úrtaki úr þýði fólks með geðraskanir og fengust tveir þættir, annars vegar líkams- og tilfinningaþáttur og hins vegar hugrænn þáttur.

Til að athuga þáttabyggingu listans í þýði fólks með þunglyndisraskanir var gerð ný rannsókn. BDI-II listinn var lagður fyrir 210 þátttakendur sem allir höfðu verið greindir með einhverja þunglyndisröskun samkvæmt DSM-IV. Þátttakendur skiptust jafnt á milli kynja og var meðalaldur þeirra 41,3 ár með staðalfrávik 15,3. Enginn þátttakendanna var undir 18 ára aldri (Steer o.fl., 1999)

Spurningalistinn samanstendur af 21 atriði sem hvert hefur fjóra svar­mögu­leika (0–3). Atriðunum er ætlað að meta einkenni þunglyndis og inniheldur hvert þeirra fjórar staðhæfingar sem standa fyrir mismikinn styrkleika einkennis. Útkomur fyrir öll atriðin eru svo lagðar saman til að fá heildartölu sem metur alvarleika þunglyndis.

Frekari upplýsingar um BDI-II listann má finna á vefnum, m.a. er grein um hann á Wikipediu.

Skil og tímamörk

Skiladagur verkefnisins er fyrir dagslok miðvikudaginn 23. nóvember nk. Skilaverkefni þurfa því að hafa borist í síðasta lagi áður en starfsfólk þjónustuborðsins mætir morguninn eftir. Skila skal verkefninu í pósthólf í þjónustuborðinu í Gimli.

Einnig skal skila verkefninu í gegnum TurnitIn kerfi Háskólans auk þess að skila útprentuðu eintaki í pósthólf í þjónustuborðinu í Gimli. Skráin sem þú skilar inn í TurnitIn þarf að hafa skírnarnöfn höfunda í nafni sínu. T.d. ef ég og Þóra værum að skila verkefni saman, myndum við skýra skjalið Skv3_Guðmundur_Þóra.doc eða eitthvað álíka. Á forsíðu prentaða eintaksins þarftu að rita staðfestingarnúmer (Submission ID number) sem TurnitIn gefur þér.

Notaðu skýrslumátið sem hefur verið lagt inn í Uglu. Skýrslumátið er með staðlaða forsíðu, myndina af klukkunni. Hún tryggir að rétt kennsl séu borin á verkefnið og það fari á réttan stað á þjónustuborðinu. Skýrslur án staðlaðrar forsíðu hafa misfarist í einhverjum tilvikum.

Stuðningur

Nemendur geta varpað fram spurningum tengdum verkefninu og svarað öðrum nemendum á umræðuþræði á heimasvæði námskeiðsins í Uglu eða í stoðtíma föstudaginn 18. nóvember nk.

Á umræðuþráðinn má setja spurningar og svör sem tengjast úrlausn á skilaverkefninu. Þóra Björk, stoðkennari, mun fylgjast með umræðum og koma inn í þær ef þurfa þykir.

Vinsamlega vandaðu til fyrirsagna á fyrirspurnum. Vel valin fyrirsögn vekur athygli bæði okkar og samnemenda og eykur því líkur á vönduðu svari. Við getum ekki lofað svörum við fyrirspurnum með fyrirsögnina Re: Skilaverkefni 3 eða álíka.

Við áskiljum okkur ritstjórnarvald sem felst m.a. í því að fjarlægja innlegg sem við teljum óviðeigandi eða sem tengjast ekki beint úrlausn verkefnisins að okkar mati. Vinsamlega sýndu þessu menntaða einveldi fullan skilning.

Verkefnið

Gerðu vandaða og nákvæma skýrslu sem tekur á öllum eftirfarandi spurn­ing­um og viðfangsefnum. Byrjaðu á því að sækja SPSS gagnaskrána og vista hana á harða diskinn hjá þér. Gagnaskráin inniheldur ofangreinda fyrirlögn á BDI-II fyrir fólk með þunglyndisraskanir en gættu að því að gögnin eru lítillega breytt og breytast á milli ára.

Tveir nemendur vinna saman að hverju skilaverkefni. Athugaðu: Þú mátt aðeins vinna skilaverkefni tvisvar með sama nemanda.

Verkefnið þarf að vera á APA-formi, þ.e. með Inngangi, Aðferð, Niðurstöðum og Umræðu. Allar töflur, myndir og tilvísanir til þeirra eiga að vera á APA-formi: Við erum ströng á því!

Við þekkjum enga leið til að fá réttar APA-töflur beint út úr SPSS þó vissulega sé hægt að komast nálægt því. Því er rétt að nota ritvinnslu eða önnur samsvarandi úrræði við gerð og frágang taflna.

Spurningar

Gættu þess í allri úrvinnslu og skilum verkefnisins að fylgja og skýra frá þeim þrepum sem lýst hefur verið í fyrirlestrum. Miðaðu við að verkefnið taki meðal annars til eftirfarandi atriða.

  1. Skoðaðu gögnin vandlega áður en þú hefst handa. Þú þarft að geta rökstutt að gögnin henti til þáttagreiningar með hliðsjón af yfirferð í tíma og umfjöllun Fabrigars og Wegeners. Þú átt m.a. að geta haft hliðsjón af umfjöllun Fabrigars og Wegeners á bls. 24 –28.
  2. Taktu afstöðu til þess hve marga þætti væri rétt að draga. Rökstyddu val þitt með, eftir atvikum, fræðilegum rökum eða reynslurökum (empirically).
  3. Framkvæmdu þáttagreiningu, rökstyddu val þitt á aðferð (þáttagreining fremur meginhlutagreiningu (principal components analysis)) við útdrátt þátta og snúning þáttalausnar með tilvísun til og eftir nákvæma skoðun annarra möguleika.
  4. Túlkaðu niðurstöðuna nákvæmlega.
  5. Gerðu grein fyrir hvort einhver fylgni sé á milli þáttanna og túlkaðu hana ef einhver er, sbr. t.d. F&W, bls. 139.
  6. Búðu til undirpróf á grunni þáttagreiningarinnar og sýndu meðaltöl, staðalfrávik og innbyrðis fylgni fyrir undirprófin. Eru niðurstöðurnar í samræmi við niðurstöður þáttagreiningar?

    Athugaðu að undirpróf eru mynduð með því að taka summu eða meðaltal af þeim atriðum (spurningum) sem þú telur vega umtalsvert á viðkomandi þátt.

Athugaðu að stundum kemur fyrir að SPSS ræður ekki við að draga þætti eða snúa þáttum. Í slíku tilviki ættirðu að leyfa forritinu að nota a.m.k. 100 endurtekningar (iterations) í extraction eða rotation valglugganum (eða báðum). Ef ekki fæst lausn þrátt fyrir þessi úrræði, er rétt að líta svo á að lausn sé ekki möguleg. Ef lausn er ekki mögulegt, er þér heimilt að líta svo á þetta hefði verið röng lausn. T.d. ef þú reynir að draga og snúa fimm þáttum, máttu líta svo á að rétt lausn sé með einum til fjórum þáttum eða sex eða fleiri þáttum, fimm þátta lausn sé röng!

Heimildir

Steer, R.A., Ball, R., Ranieri, W.F. & Beck, A.T. (1999). Dimensions of the Beck Depression Inventory-II in clinically depressed outpatients. Journal of Clinical Psychology, 55(1), 117–128. doi:10.1002/(SICI)1097-4679(199901)55:1<117::AID-JCLP12>3.0.CO;2-A