Tölfræði IIPróflýsing vorið 2018

Eftirfarandi upplýsingar eru gefnar með venjulegum fyrirvara. Við samningu prófsins geta orðið breytingar frá neðangreindri lýsingu. Lýsingunni er þó ætlað að gefa sem réttasta mynd af prófinu og styðja þannig við þig í prófundirbúningnum.

Próftími

Samkvæmt upplýsingum frá prófstjóra hefst prófið stundvíslega kl. 900 og lýkur stundvíslega kl. 1200 þriðjudaginn 8. maí næstkomandi. Próftími er 3 klukkustundir.

Athugaðu sjálf hver réttur próftími er—ekki treysta þessum upplýsingum í blindni.

Prófstaður

Upplýsingar um prófstað birtast á sama stað nokkrum dögum fyrir prófið. Gættu þess að leita nýjustu upplýsinga 1–2 dögum fyrir próf.

Próflýsing

Prófið er tvískipt. Annars vegar eru fyrirhugaðar 2–3 efnisspurningar og hins vegar um 20 fjölvalsspurningar. Efnisspurningar gilda samtals 60% af prófinu en fjölvalsspurningarnar 40%. Miðað er við að fjölvalsspurningahluti prófsins verði efnislega óbreyttur frá fyrra ári þótt röð spurninga og liða geti breyst milli ára.

Efnisspurningar geta tekið yfir mjög misjafnt efni. Þær geta verið beint úr bókinni, úr fyrirlestrum, Spurðu og svöruðu, umræðum í tíma eða umræðuþráðum í Uglu. Þær geta kallað eftir staðreyndaþekkingu, skilningi, beitingu eða einföldum útreikningum. Í síðasttalda tilfellinu verða útreikningar þó það einfaldir að hægt er að setja gefnar upplýsingar beint inn í viðeigandi formúlur.

Efnisspurning getur verið stuttsvarsspurning, þ.e. spurning um afmarkað efni sem er hægt að svara í fáeinum setningum. Efnisspurning getur einnig falist í því að lýsa mynd eða töflu. Gamlar prófspurningar eiga að gefa góða mynd af efnisspurningunum.

Krossaspurningarnar reyna ýmist á einfalda útreikninga, ályktanir á grunni þeirra eða hreinan skilning á námsefninu. Ég mæli með því að þú skoðir umfjöllun um formúluheftið í Spurðu og svöruðu um þær formúlur sem ekki eru í formúluheftinu.

Námsefni fyrir próf

Greinargóða lýsingu á námsefni má finna í námskeiðslýsingu námskeiðsins.

Hjálpartæki

Þú þarft að hafa með þér reiknivél og hafa öðlast nauðsynlega kunnáttu og þjálfun í notkun hennar. Reiknivélin þarf að geta reiknað kvaðratrót og sett tölur í annað veldi.

Önnur hjálpartæki eru óheimil. Sérstaklega skal tekið fram að óheimilt er að hafa kennslubækur, minnismiða, tímaglósur eða önnur slík gögn.

Með prófinu færðu mjög einfalt formúlu- og töfluhefti. Gert er ráð fyrir að þú hafir ýmsar einfaldar formúlur á valdi þínu aðrar en þær fáu sem eru í heftinu.

Vægi prófa og námskeiðseinkunn

Lokaprófið vegur 58% af lokaeinkunn námskeiðsins: Efnisspurningarnar vega því samtals tæp 35% (0,60 × 0,58= 0,348) og fjölvalsspurningar samtals tæp 25% (0,40 × 0,58= 0,232) af lokaeinkunn námskeiðsins. Auk þess vega heimadæmi misserisins samtals 15% og skilaverkefnin þrjú samtals 27% af námskeiðseinkunninni. Nákvæmar upplýsingar um þetta er að finna í námskeiðslýsingu námskeiðsins.

Gangi þér vel!