Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir núna hefur fylgi Samfylkingar farið minnkandi allt frá marslokum. Fylgi Sjálfstæðisflokks hefur hins vegar verið tiltölulega stöðugt yfir allt tímabilið.
Þrjár kannanir skera sig frá meginleitni línanna. Könnun DV sem gerð var þann 31. mars síðastliðinn sýnir óvenjulega mikla yfirburði D-lista yfir S-lista. Sama gildir um könnun IBM ráðgjafar með þyngdarpunkt 5. apríl síðastliðinn þótt í minna mæli sé. Mjög stór könnun Gallup með þyngdarpunkt þann 3. apríl síðastliðinn sýnir hins vegar nánast engan mun á fylkingunum tveimur. Gallupkönnunin er gerð yfir afar langt tímabil. Þessi frávik gera það að verkum að erfitt er að henda reiður á fylgi fylkinganna tveggja þessa fyrstu vikur í apríl.
Fylgi Framsóknarflokks fer lækkandi allt tímabilið og virðist ná lágmarki undir lok þess. Frjálslyndir auka fylgi sitt mjög mikið og virðast enn vaxandi undir lok þess. Fylgi Vinstri grænna fer hægt minnkandi en eru þó aðeins með eilítið lægra fylgi undir lok þessa fimm vikna tímabili heldur en þeir höfðu við upphaf þess.
Í heild eru fylgislínur minni framboðanna trúverðugar. Matið á fylginu undir lok tímabilsins gæti þó átt eftir að breytast eitthvað vegna upplýsinga frá könnunum sem gerðar verða seinni part aprílmánaðar.
© 2003 Guðmundur B. Arnkelsson