Normaldreifing villunnar (normality of error) er forsenda sem liggur til grundvallar dreifigreiningu. Í því felst að dreifing villunnar í þýði sé normallaga. Einstök úrtök úr þýði geta ekki alltaf staðist þessa forsendu og er það í raun eðlilegt sökum úrtaksdreifingar.
Til að kanna hvort dreifing villunnar sé normallaga eru gögnin sett fram á myndrænan hátt þar sem helstu eiginleikar gagnanna (dreifingar) koma fram. Lögun er eiginleiki dreifingar og gefur hún til kynna hvernig dreifingin lítur út, það er er hún flöt, skekkt, tvítoppa, fjöltoppa, götótt eða normal. Hana er hægt að skoða á kassariti eða í normalriti. Þegar normalrit er skoðað er leifin (residual) notuð en leifin er frávik frá spágildi og því nátengd villudreifingunni.
Fráviksgildi eða frávillingar (outliers) geta mögulega verið frávik frá normaldreifingu villunnar. Því ber að skoða þá vandlega, til dæmis á kassariti og normalriti, og spyrja hvort fráviksgildin séu það ólík öðrum gildum að það bendi til þess að forsendan standist ekki. Það gildir engin algild regla um frávillinga í gögnum og því reynir á dómgreind og rökstuðning hvers og eins við mat á frávillingum. Stærð úrtaks og fjöldi í hópum skipta einnig máli fyrir normaldreifingu villunnar.
Almennt litið, er brot á þessari forsendu ekki talið alvarlegt þar sem F-prófið er nokkuð traust gagnvart frávikum frá normaldreifingu en þó eru skiptar skoðanir á því. F-prófið er aftur á móti ekki traust gagnvart frávillingum.
© 2003 Sigurlaug María Jónsdóttir