Úrtaksstærð eða fjöldi þátttakenda, skiptir máli þegar afköst t-prófs eru metin. Fjöldi þátttakenda
er breyta í flestum þeim jöfnum sem notaðar eru til að reikna út áhrifastærðir og afköst.
Engar þumalputtareglur eru til um fjölda þátttakenda aðrar en þær að jafn fjöldi ætti að vera
í hópum.
Þá skiptir máli að valið hafi verið í hópa með tilviljunaraðferð til að tryggja eins vel og
kostur er að normaldreifing í þýði haldi sér í úrtaki.
Eitt af því sem gerist þegar þátttakendum fjölgar er að dreifni í úrtakinu lækkar. Þetta
skiptir máli vegna þess að dreifni í þýði er sjaldnast þekkt þegar t-próf eru reiknuð.
Hins vegar er hægt að reikna dreifni úrtaks og eftir því sem fleiri þátttakendur eru í
úrtaki lækkar hún.
Eftir því sem dreifni er lægri aukast afköst tölfræðilegra prófa og því getur verið fýsilegt
að fjölga þátttakendum í rannsókn til að auka afköst hennar og oft er það einfaldasta leiðin.
Nánar um útreikning afkasta.
© 2003 Pétur Maack Þorsteinsson