Að reikna afköst eftir að rannsókn hefur verið framkvæmd er kallað eftir á afköst (post hoc power analysis eða observed power í SPSS). Eftirá afköst eru helst reiknuð í tvennum tilgangi:
Annars vegar eru eftir á afköst reiknuð til að túlka niðurstöður marktektarprófs. En það er rangur skilningur á afköstum. Að túlka afköst eftir að niðurstöður marktektarprófs liggja fyrir bætir engu við niðurstöðu marktektarprófsins og er í raun merkingarlaust. Það bætir engu við vegna þess að p-gildi marktektarprófa eru í öfugu hlutfalli við afköst.
Niðurstöður marktektarprófs er annaðhvort að núlltilgátu sé hafnað eða ekki. Ef núlltilgátunni er hafnað eru afköst klárlega nógu mikil. Það gæti ekki verið öðruvísi (samanber samband p-gildis og afkasta). Ef núlltilgátunni er ekki hafnað er það stundum skýrt með vísun í lítil afköst: ,,munur var ekki marktækur en hefði e.t.v verið það ef afköst rannsóknarinnar hefðu verið meiri“. En að túlka mun sem ekki er marktækur er a.m.k vafasamt ef ekki óviðeigandi. Enn fremur á það sama við hér og áðan um samband p-gildis og afkasta. Ef munur er ekki marktækur (p-gildi t.d hærra en 0,05) eru afköst rannsóknarinnar sjálfkrafa of lítil til að greina tiltekinn mun.
Hins vegar eru eftir á afköst reiknuð til að komast að því hversu miklar líkur eru á því að hafna núlltilgátunni ef rannsókn er endurgerð. Það getur getur verið afar gagnlegt til auka eða minnka afköst í endurtekinni rannsókn. Þá er mikilvægt að stjórna þeim atriðum sem hafa áhrif á afköst.
Rannsóknir kosta tíma og peninga og því mikilvægt að þær séu vel ígrundaðar áður en þær eru framkvæmdar. Með því að reikna afköst áður en lagt er af stað er hægt að auka líkurnar á því að núlltilgátu sé réttilega hafnað. Með því að reikna afköst áður er hægt að ákveða hversu mikinn mun maður vill að marktektarpróf finni og hversu stórt úrtak maður þarf til að munurinn sé marktækur. Almennt séð kemur það að litlu gagni að reikna afköst eftir að rannsókn hefur verið gerð; nema tilgangurinn sé að endurgera rannsóknina.
© 2004 Magnús F. Ólafsson