Eins og sjá má skipta núlltilgátur höfuðmáli í prófun tilgátna í rannsóknarstarfi. Núlltilgátur geta þó virst einkennilegar því þær eru alveg gagnstæðar á við tilgátuna sem verið er að rannsaka. Ef rannsakandi ætlaði til dæmis að kanna þá rannsóknartilgátu að húsmæður séu að meðaltali með hærri greindarvísitölu en almenningur (H1: µ1 < µ2) myndi hann einnig setja fram núlltilgátuna að húsmæður séu að meðaltali ekki með hærri greindarvísitölu en almenningur (H0: µ1 − µ2 = 0).
Núlltilgáta vísar oftast til þess að munurinn á milli hópanna í úrtakinu sé núll, eða með öðrum orðum, að enginn munur sé til staðar. Ástæðuna fyrir notkun núlltilgátna má meðal annars rekja til þeirrar hugmyndar að rannsakendur geti aldrei sýnt fram á að hlutir séu sannir, þeir geti aðeins sýnt fram á að hlutir séu ósannir. Rannsókn á 5000 manneskjum með tvær lappir sannar ekki fullyrðinguna „allar manneskjur hafa tvær lappir.“ Ef aftur á móti ein manneskja með þrjár lappir væri fundin sýnir það að fullyrðingin sé röng.
Annað dæmi um hagnýtingu núlltilgáta er best að útskýra með eftirfarandi dæmi. Gefum okkur að rannsóknartilgáta í tiltekinni rannsókn sé að drengir mælist hærri en stelpur að meðaltali á einhverju tilteknu greindarprófi. Núlltilgátan væri að enginn munur sé til staðar á milli hópanna. Í dæminu er rannsóknartilgátan eingöngu sú að drengir séu að meðaltali hærri en stelpur, en rannsakandinn tiltekur ekkert hversu mikill munurinn sé á milli hópanna, til dæmis að drengir séu að meðaltali 15 stigum hærri. Núlltilgátan gerir honum kleift að tiltaka ekki hversu mikill munurinn á milli hópanna sé, því ef hann hafnar núlltilgátunni er hann búinn að sýna fram á að munur sé á milli hópanna, óháð því hversu mikill hann er.
© 2004 Brynjar Halldórsson