Núlltilgátan er mikilvæg í prófun tilgátna. Núlltilgáta er tilgátan sem er prófuð beint og hún er oft andstaða þess sem rannsakandi vill í rauninni sýna fram á. Hún er sett fram til að leyfa gögnum að stangast á við hana. Annaðhvort er núlltilgátunni hafnað eða ekki eftir því hvernig gögnin eru en hún er aldrei samþykkt.
Dæmi: Ef við vonumst til að geta sýnt fram á þá rannsóknartilgátu að háskólanemar komi ekki úr þýði þar sem meðalskor sjálfsöryggis er 100, þá setjum við strax fram þá núlltilgátu að þeir komi þaðan.
Annað dæmi: Rannsakandi hefur áhuga á því að vita hvort neysla áfengis hafi áhrif á það hve langan tíma tekur að svara áreiti í tilraun. Rannsakandi setur fram núlltilgátu um að þýðismeðaltölin séu þau sömu eða jafngildi núll (µ1-µ2= 0) ef hann vill sýna fram á að meðaltölin í þýðinu, þaðan sem úrtökin tvö eru dregin, séu ólík. Í tilraunum á áhrifum áfengis, þá væntir tilraunamaður líklega að áfengi hafi slæm áhrif. Ef gögnin úr tilrauninni sýna nægilega stór áhrif áfengis þá er núlltilgátunni um að áfengi hafi engin áhrif hafnað.
© 2004 Anika Ýr Böðvarsdóttir