Þar sem stefna leikskóla Reykjavíkur er að veita einhverfum börnum atferlismeðferð verður að athuga að ef slík meðferð á að skila góðum árangri er mælt með að stíf þjálfun fari ekki undir 6 tíma á dag (t.d. Lovaas meðferðarkerfi). Því er ljóst að 2 tímar á dag í 8 tíma gæslu er hvergi nærri nóg. Þess ber að gæta að þó svo sérstuðningur fylgi börnunum allt að því allan daginn telst aðeins tími í sérstökum þjálfunaraðstæðum til atferlismeðferðar.
Hvað lög og reglugerðir varðar vantar sérkennslureglugerð varðandi leikskóla. Þetta er bagalegt þar sem sveitarfélög og svæðisstjórnir hafa þá tiltölulega frjálsar hendur um hvernig starfsemi leikskóla er löguð að þörfum fatlaðra.
Nauðsynlegt má telja að skilgreina hver þjálfunarþörf barna sé og gefa út viðmið sem tryggi að hvert barn hljóti bestu meðferð sem kostur er á.
Þegar um einhverf börn er að ræða er sérstaklega mikilvægt að þjálfun byrji snemma og sé mikil, því eftir því sem þau eldast læra þau frekar að lifa með tjáningar- og samskiptaleysi sínu og von um aukna hæfni minnkar. Þó svo að atferlismeðferð geti verið dýr (Lovaas miðar t.d. við að tveir sérþjálfaðir starfsmenn séu með barnið í einu) og kalli á mikla sérfræðiþekkingu er nokkuð öruggt að ef vel er að verki staðið verður einstaklingurinn margfalt hæfari og hefur von um mun venjulegra líf en ella. Aðalávinningur af því er að sjálfsögðu mun fyllra líf einstaklingsins og meira sjálfstæði, en líka stórkostlegur sparnaður fyrir samfélagið þegar til lengri tíma er litið.
©1996